„Það er ómannúðlegt að senda fólk á götuna í Grikklandi, ekki síst ef það er í hjólastól. Þess vegna er sérkennilegt að við skulum gera það og sérkennilegt að stjórnmálaflokkurinn sem stendur einna helst fyrir því skuli á landsfundi sínum um helgina hafa samþykkt það og reynt að fullvissa fólk um að stefnan sé eftir sem áður mannúðleg.“
Þetta sagði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Vísaði hann í fréttaskýringu Kjarnans þar sem fram kemur að þýskir dómstólar telja endursendingar flóttafólks til Grikklands fela í sér hættu á að það verði fyrir ómannúðlegri meðferð.
Evrópsk ríki vísuðu einungis 96 flóttamönnum aftur til Grikklands á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af höfðu Svíar vísað flestum til baka, alls 35 flóttamönnum.
„Við Íslendingar ætluðum að senda 30 á dögunum með einni flugvél í atburði sem hæstvirtur dómsmálaráðherra talaði um að væri nánast vikulegt brauð hér á Íslandi,“ sagði Sigmar.
Ástæða til að ítreka að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir umburðarlyndi
Sigmar vísaði í stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á landsfundi flokksins um síðustu helgi. Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti sömuleiðis athygli á stefnunni í störfum þingsins í dag. Í henni segir meðal annars:
„Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað,“ segir meðal annars í stefnunni. Friðjón sagði ástæðu til þess að ítreka að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem kemur hingað með löglegum hætti.
Leggja til að brottvísanir og endursendingar til Grikklands verði stöðvaðar
Sigmar setti spurningamerki við mannúðina í stefnu Sjálfstæðisflokksins. „Það er ekki nóg að hlutirnir séu í orði, þeir verða líka að vera í verki.“
Viðreisn, Píratar og Samfylking hafa lagt fram þingsályktunartillögu, í annað sinn, um að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. „Af hverju gerum við það? Jú, það er vegna þess að Ísland á að vera ríki sem virðir mannréttindi og er með þau í verki en ekki bara í orði,“ sagði Sigmar.
Meint umburðarlyndi Sjálfstæðisflokksins
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, gerði einnig athugasemd við nýsamþykkta stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum innflytjenda. Vísaði hann í Kastljósviðtal við rússnesk hjón sem komu hingað til lands frá Rússlandi, með viðkomu á Ítalíu.
Maðurinn er kominn með atvinnutilboð en getur ekki nýtt sér það vegna hindrana í kerfinu. „Sama kerfi og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill meina að fólk eigi að geta nýtt sér til að komast í vinnu frekar en að sækja í verndarkerfið,“ sagði Andrés Ingi.
„Hinn spræki varaþingmaður Friðjón Friðjónsson [...] heldur því fram að flokkurinn standi fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem hingað kemur. Máli sínu til stuðnings vísaði hann í ályktun flokksins frá helginni um að leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hér hefur fengið starf og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. Háttvirtur varaþingmaður hefur kannski ekki tekið eftir þeim Antoni og Viktoríu sem standa hér fyrir utan Alþingi og mótmæla vegna þess að þau fá einmitt ekki koma hingað og starfa, vegna þess að þau fá ekki að vera hér á landi í nafni hins meinta umburðarlyndis Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Andrés Ingi.