Halldór Kristmannsson, einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman til 18 ára, segist hafa verið beittur fordæmalausri hörku fyrir að hafa gerst uppljóstrari og sagt frá hegðun Róberts, forstjóra Alvogen og Alvotech, sem fól meðal annars í sér morðhótanir.
Halldór, sem var upplýsingafulltrúi og síðar framkvæmdastjóri hjá samstæðunni, sendi frá sér tilkynningu í morgun.
Þar segir hann að sama dag og Alvogen sendi frá sér yfirlýsingu um að stjórn fyrirtækisins bæri fullt traust til Róberts eftir rannsókn sem framkvæmt var vegna kvörtunar Halldórs, hafi verið setið fyrir honum. Sú harka sem sé hlaupinn í málið sé með ólíkindum. „Sama dag og nafni mínu er lekið í fjölmiðla og tilkynnt um „hvítþottinn“, þá er setið fyrir mér fyrir utan World Class í Smáralind, með uppsagnarbréf og stefnu, þar sem fyrirtækin hyggjast freista þess að fá lögmæti uppsagnarinnar staðfesta fyrir Héraðsdómi. Stjórnum fyrirtækjanna virðist einfaldlega vera ofviða að framkvæma óháða rannsókn á stjórnarformanni, forstjóra og sínum stærsta hluthafa, eða aðhafast nokkuð yfir höfuð þegar Róbert er annars vegar.“
Morðhótanir og misnotkun á fjölmiðlum
Áðurnefnd yfirlýsing Alvogen var send út til fjölmiðla 23. mars síðastliðinn. Þá var málið ekki á vitorði margra og lítið kom fram í henni annað en að „óháð úttekt“ hefði sýnt að engin gögn bentu til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnarhætti Róberts sem forstjóra fyrirtækjanna tveggja. „Niðurstaðan er skýr og ljóst að efni kvartananna á sér enga stoð. Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til þess að aðhafast neitt vegna þessa máls.“
Róbert hefur gengist við því að hafa sent skilaboðin og upplýsingafulltrúi hans, Lára Ómarsdóttir, sagði við fjölmiðla að hann hafa beðist afsökunar á þeim og sjái eftir að hafa sent skilaboðin. Þau hafi verið send úr flugvél.
Halldór sagði einnig að Róbert hefði beitt sig allskyns óeðlilegum þrýstingi til að koma höggi á meinta óvildarmenn sína, meðal annars í gegnum fjölmiðla sem þeir fjármögnuðu. Kjarninn greindi frá því 29. mars að einn þeirra væri Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, en Róbert hafði tapað dómsmáli gegn syni Haraldar.
Gæti skaðað orðspor
Í tilkynningu sinni í dag segir Halldór, sem er hluthafi í fyrirtækjunum, að hann hafi talsverðar áhyggjur af aðgerðarleysi Alvogen og Alvotech í málinu og að það kunni að skaða orðspor fyrirtækjanna tveggja. „Málið hefur vakið nokkra athygli erlendis á meðal samstarfsaðila, viðskiptavina og fjárfesta, sem hafa sumir hverjir sett sig í samband við mig. Umræddir aðilar hafa eðlilega borið upp spurningar og lýst áhyggjum af þróun mála.
Sama á við um íslenska fjárfesta, sem komu nýlega að fjármögnun Alvotech, og aðra sem hafa hagsmuna að gæta hér á landi. Ég vill því stíga fram og ítreka sáttahug og velvilja í garð fyrirtækjanna og samstarfsmanna. Slík sátt setur hagsmuni fyrirtækjanna í forgang og felur í sér að óháðir stjórnarmenn taki hæfi Róberts til alvarlegrar skoðunar. Auðmýkt, virðing og almenn skynsemi, er það eina sem þarf til að ljúka þessu máli, með farsælum hætti.“
Hann segir að sú aðferð sem beitt hefur verið hingað til að hálfu Alvogen og Alvotech, sem felur í sér að hans mati að skjóta sendiboðann og hvítþvo Róbert Wessman, sé til þess fallin að rýra trúverðuleika stjórnarmanna og hluthafa, og geti að óbreyttu skaðað orðspor fyrirtækjanna til framtíðar. „Ég hef enn ekki fengið neina niðurstöðu um rannsókn, enda hef ég ástæðu til að efast um að einhver rannsóknarskýrsla hafi yfir höfuð verið gerð. Mér var meinaður aðgangur að vinnugögnum, til að aðstoða við rannsóknina, og frá byrjun var ljóst að lögfræðistofunni White & Case, var falið að „hvítþvo“ Róbert. Enn og aftur, virðist stjórn Alvogen ætla að horfa fram hjá kvörtunum um ósæmilega hegðun Róberts.“