Einungis 61,3 prósent landsmanna treysta niðurstöðum nýafstaðinna þingkosninga vel, 15,4 prósent þeirra segjast treysta þeim í meðallagi en 23,3 prósent segjast treysta þeim illa.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína framkvæmdi daganna 27. september til 7. október síðastliðinn. Alls voru svarendur í könnuninni 946 talsins, af landinu öllu og yfir 18 ára gamlir. Gögnin voru vegin til að endurspegla þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.
Könnunin sýnir að fólk undir fimmtugu er líklegra til að vantreysta niðurstöðum þingkosninganna en þeir sem eldri eru. Þá treysta kjósendur Sjálfstæðisflokks (94,6 prósent) og Framsóknarflokks (77,3 prósent) niðurstöðunum mun betur en kjósendur annarra flokka en kjósendur þriðja stjórnarflokksins, Vinstri grænna (59 prósent), eru ólíklegri til að treysta niðurstöðunum. Ríkisstjórnin hélt í kosningunum og flokkarnir sem standa að henni eru með 37 þingmenn. Þeir reyna nú að komast að samkomulagi um áframhaldandi samstarf.
Meðferð kjörgagna ekki fullnægjandi
Enn liggur ekki ljóst fyrir hverjar endanlegar niðurstöður kosninganna verða. Ástæðan er sú að endurtalning fór fram í Norðvesturkjördæmi sem sýndi umtalsvert breytta niðurstöðu frá því sem fyrri talning hafði sýnt. Í millitíðinni, frá því að fyrri talningu lauk og þar til sú síðari fór fram, var öryggi kjörgagna ekki tryggt.
Afleiðing þessa varð meðal annars sú að fimm frambjóðendur sem töldu sig vera orðna jafnaðarsætaþingmenn misstu þau sæti, og þau fóru til fimm annarra frambjóðenda sömu flokka.
Landskjörstjórn greindi frá því á þriðjudag í síðustu viku að ekki hefði borist staðfesting á því frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að meðferð kjörgagna hafi verið fullnægjandi. Það er í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem slík yfirlýsing er gefin eftir þingkosningar. Síðar hafa bæst við upplýsingar sem sýna að víða var pottur brotinn í framkvæmdinni, meðal annars var formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu einn með óinnsigluðum kjörgögnum í 29 mínútur í aðdraganda seinni talningar.
Fjórir af þeim fimm frambjóðendum sem duttu út eftir endurtalningu hafa skilað inn kæru til kjörbréfanefndar Alþingis vegna kosninganna í Norðvesturkjördæmi.
Undirbúningskjörbréfanefnd er nú að störfum og reynir að komast að niðurstöðu um kjörbréf þingmanna. Möguleikarnir sem hún stendur frammi fyrir er að láta fyrstu talningu gilda, láta endurtalninguna gilda, láta fara fram uppkosningu í Norðvesturkjördæmi eða láta kjósa upp á nýtt á öllu landinu.