Í tíunda þætti hlaðvarpsins Bókahússins segir Hallgrímur Helgason frá öðru bindinu í Segulfjarðarepík sinni um síldarárin miklu, 60 kíló af kjaftshöggum, og talar almennt um skrif, lestur og listsköpun. Hann segist í þættinum vera að gæla við að skrifa heilan „sextett“ af Segulfjarðarbókum.
Áslaug Jónsdóttir, Ólafur Gunnar Guðlaugsson og Rut Guðnadóttir komu svo í „Kryddsíld Bókahússins“, hámuðu í sig síld og kæstan dreka og ræddu skrímsli, furður og yfirnáttúrulegheit í barna- og unglingabókum.
Öll voru þau að senda frá sér nýjar bækur, Áslaug skrímslabókina Skrímslaleikur, Ólafur Gunnar ungmennasöguna Ljósberi og Rut Guðnadóttir ungmennabókina Drekar, drama og meira í þeim dúr.
Bókahúsið er hlaðvarp Forlagsins og þættina, sem eru í umsjá Sverris Norlands, má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í Bókahúsinu er rætt við höfunda en einnig aðra sem með einhverjum hætti koma að bókaútgáfu. Þættirnir hófu göngu sína í haust og hefur þáttastjórnandi farið um víðan völl í heimi bókmennta og bókaútgáfu.