Siðanefnd RÚV hefur tjáð fréttamanninum Helga Seljan að úrskurðir hennar séu endanlegir og verði ekki áfrýjað. Þetta kemur fram í svarbréfi sem siðanefndin sendi í gær vegna endurupptökubeiðni Helga, sem send var þann 10. apríl.
Í svari siðanefndarinnar segir að nefndin sé ekki skipuð lögum samkvæmt og sé ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýslulaga. Þannig sé nefndin ekki bundin af stjórnsýslulögum, „þó hún hafi bent á að hún byggi á meginreglum sem gilda í stjórnsýslunni, hvað varðar að upplýsa málið, andmæli og jafnræði aðila í málsmeðferðinni.“
Eins og Kjarninn sagði frá á fimmtudag voru færð rök fyrir því í endurupptökubeiðni Helga að úrskurð nefndarinnar ætti að endurupptaka í heild sinni vegna mistaka siðanefndarinnar, sem hefði metið fimm ummæli hans heildstætt til að komast að niðurstöðu í málinu, þar af ein ummæli sem ekki fjölluðu um Samherja.
Siðanefndin segist hafa leiðrétt mistök sín og komið því á framfæri við málsaðila að mistökin hefðu engin áhrif á niðurstöðu málsins. Helgi hafi einnig verið beðinn afsökunar á mistökunum í sérstöku skriflegu erindi.
Ekkert hafi komið fram sem dragi óhlutdrægni Sigrúnar í efa
Í endurupptökubeiðni Helga voru einnig færð rök fyrir því að einn nefndarmanna, Sigrún Stefánsdóttir, hefði ekki verið hæf til þess að kveða upp úrskurðinn, vegna hagsmunatengsla við Samherja. Siðanefndin segir ekkert hafa komið fram í endurupptökubeiðninni „sem gefur til kynna að hún hafi ekki verið hæf í skilningi stjórnsýslulaga til að kveða upp úrskurðinn.“
„Afmarkað verkefni Sigrúnar er varðar Vísindaskóla unga fólksins, sem er vikulangt námskeið fyrir börn á aldrinum 11-13 ára og er innan Háskólans á Akukreyri, lá fyrir og er greitt af Háskólanum á Akureyri, þó starfsemi skólans sé vissulega studd af 20-25 fyrirtækum á Akureyri.
Seta hennar í stjórn fjölmiðilsins N4, undanfarin 7 ár, sem sjálfstæður stjórnarmaður er öllum kunn. Hún er ekki eigandi fjölmiðilsins né á fjölmiðillinn sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Fjölmiðillinn er jafnframt með skýrar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og stjórn hans kemur að engu leyti að ritstjórn og daglegum störfum,“ segir í erindi siðanefndarinnar, sem telur ekkert hafa komið fram sem raski því mati að hún hafi verið hæf til að kveða upp úrskurð í málinu og ekkert komið fram sem dragi óhlutdrægni hennar með réttu í efa.
Bent á að viðurlög vegna úrskurðarins séu engin
Í svari siðanefndarinnar er einnig umfjöllun um hagsmuni Helga af því að fá úrskurðinn endurupptekinn. Siðanefndin virðist ekki meta þá mikla, þar sem hún bendir á að í úrskurði siðanefndarinnar hafi ekki verið mælt fyrir um nein viðurlög.
„Útvarpsstjóri og yfirstjórn RÚV hafa tilkynnt að af þeirra hálfu fylgi engin viðurlög í kjölfar úrskurðar nefndarinnar og hann hafi engin áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV. Stjórn RÚV hefur jafnframt lýst yfir að málið sé ekki á hennar valdsviði og hún muni ekki aðhafast neitt í málinu,“ segir í svari siðanefndarinnar.
Í bréfinu, sem Gunnar Þór Pétursson undirritar fyrir hönd nefndarinnar, segir að siðanefnd telji sig hafa uppfyllt allar skyldur sínar í málinu. Mat hennar sé að það séu engar forsendur til að bregðast frekar við endurupptökubeiðninni.