Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, var sett í rigningunni í Glasgow í morgun, ári á eftir áætlun vegna heimsfaraldurs. Lítið annað en setning og móttökur eru á dagskránni í dag en á morgun hefjast samningaviðræður tæplega 200 leiðtoga heimsins. Þá er búist við að yfir 25 þúsund manns sæki ráðstefnuna á meðan henni stendur næstu tvær vikurnar.
Alok Sharma, breskur ráðherra og forseti loftslagsráðstefnunnar, heitir því að Glasgow muni koma til skila því sem lofað var í París. „COP26 er okkar síðasta, farsælasta von til að vera innan 1,5 gráðu markanna,“ sagði Sharma í setningarræðu sinni í Glasgow.
COP er stytting á enska heitinu „Conference of the Parties“ eða ráðstefna aðildarríkja og er þar vísað til alþjóðlegra samninga, annars vegar um loftslagsmál og hins vegar fjölbreytni lífríkisins. Sameinuðu þjóðirnar skipuleggja ráðstefnurnar en þátttakendur eru háttsettir fulltrúar ríkja, staðbundinna samtaka og frjálsra félagasamtaka. Loftslagsráðstefnan í París var sú 21. í röðinni og var því kölluð COP21 og sú sem hófst í Glasgow í morgun númer 26 og kallast því til styttingar og einföldunar COP26.
Helsta markmið COP26 snýr að mikilvægi þess að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður, viðmið sem sett var á loftslagsráðstefnunni í París fyrir sex árum. Þátttökuríki ráðstefnunnar þurfa hvert og eitt að gera grein fyrir aðgerðaráætlunum sínum til ársins 2030 þegar kemur að minnkun kolefnisútblásturs. Samkvæmt greiningu umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna á aðgerðunum, formlegum og óformlegum, munu þær hins vegar duga skammt þar sem hlýnun jarðar við lok þessarar aldar verður 2,7 gráður með þessu áframhaldi sem mun leiða til „loftslagslegs stórslyss“.
Ísland mun eiga sína fulltrúa á ráðstefnunni, meðal annars Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra. Íslensk stjórnvöld skiluðu skýrslu sinni um langtímaáætlun í loftlagsmálum til Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) á fimmtudag. Í skýrslunni er að finna samantekt um þegar yfirlýst markmið Íslands í loftslagsmálum og þá hluti sem stjórnvöld hafa verið að vinna að undanfarin ár.
Kastljósið beinist óneitanlega að helstu iðnríkjum heims þar sem nærri 80% kolefnisútblásturs kemur frá 20 stærstu iðnríkjum heimsins. Leiðtogar þeirra eru einmitt samankomnir á ráðstefnu í Róm. Í morgun komust þau að samkomulagi um mikilvægi þess að hlýnun jarðar fari ekki yfir 1,5 gráður. Í samkomulaginu er hins vegar ekkert kveðið á um skýr loforð um kolefnishlutleysi árið 2050. Leiðtogarnir halda nú til Glasgow þar sem formlegar viðræður hefjast á morgun.
Greta Thunberg og fleiri aðgerðasinnar sækja Glasgow heim
Aðgerðasinnar í loftslagsmálum hafa einnig lagt leið sína til Glasgow. Um 130 voru samankomnir þegar ráðstefnan var sett í morgun. „Ég er hér af því að ég vil að stjórnmálamenn geri meira til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar og ég vona að COP leiði til kerfisbreytinga,“ segir Allan MacIntyre, loftslagsaðgerðasinni.
Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er einnig mætt til Glasgow en hún segir heimsbyggðina enn vera á rangri leið í loftslagsmálum. „Ef við beinum sjónum okkar frá því að finna smugur og afsakanir til að taka ekki þátt, sem ég tel að sé raunin núna, og einbeitum okkur að því að takast á við loftslagsvána í raun og veru, þá fyrst getum við náð fram stórtækum breytinum,“ segir Thunberg.
„Við getum alltaf komið í veg fyrir að hlutirnir verði verri. Það er aldrei of seint að gera allt sem við getum.“