Í lok þessa mánaðar verður síðustu bókabúðinni í Gex – L´Archiel des Mots -lokað. Það eru hjónin Anne og Alex Soubra-Belay sem hafa rekið þessa verslun um árabil. Hann er tölvunarfræðingur og hún er endurskoðandi. Þau áttu sér lengi þann draum að opna lítið bókakaffi og hafa staðið fyrir ýmsum menningarviðburðum: ljóðaupplestrum, myndlistarsýningum, bókakynningum, skipulagt leshringi, fundi og mannfagnaði, selt og keypt gamlar bækur. En eftir taprekstur síðastliðin þrjú ár er draumurinn úti.
„Við eigum eftir að sakna kúnnanna en við getum ekki lengur keppt við Amazon og stórmarkaðina.“
Verslun og viðskipti í frönskum smábæ
Það er notalegt andrúmsloft í þessari litlu búð sem er staðsett í hjarta bæjarins. Hér situr fólk, drekkur kaffi, spjallar og les. Það er lykt af gömlum pappír í loftinu, djassplata rúllar á fóninum; búðin er stútfull af fallegum og merkilegum bókum, safngripum, sérviskulegum ritum. Hér er stöðugt skvaldur um heimsmálin, bókmenntir og slúður bæjarins. Það er sérstakur krókur fyrir börn sem una sér vel í kyrrð og ró.
„Flestir sem koma hérna eru annað hvort mjög ungir eða frekar gamlir. Fólk á aldrinum 20 til 60 ára sést ekki hérna,“ segir Anne á meðan hún hellir upp á kaffi og afgreiðir bækur.
Arnaldur Indriđason er sá íslenski höfundur sem mesta plássiđ tekur í frönskum bókabúđum. Bókabúðin í Gex er engin undantekning. Mynd: FE
Gex er lítill, gamall, franskur bær sem berst fyrir lífi sínu og því að geta verið lítill, gamall, franskur smábær. Hann liggur við landamæri Sviss með Júrafjöllin í norðri, Alpana í suðri og stórfljótið Rón í austri. Um árabil nutu bændur og bæjarbúar skattafríðinda vegna landfræðilegrar einangrunar. Hér hefur ríkt friður í gegnum miklar styrjaldir og bærinn nýtur nálægðarinnar við Genf. Það er efnahagslegt öryggi, hagvöxtur og uppbygging. Í bænum búa um tíu þúsund manns frá ýmsum löndum; fjölmargir kjósa að búa hér í sveitinni, en vinna í stórborginni sem er í um tuttugu kílómetra fjarlægð. Friðsælar kýr sjást á beit á hverju túni og undir fótum þeirra, í iðrum jarðar, liggur síðan öreindahraðall CERN þar sem vísindamenn reyna að leysa helstu ráðgátur alheimsins.
Hér bjuggu til forna Keltar og hér dvaldi Júlíus Sesar á leið sinni norður eftir að hafa hertekið Genf og reisti sér kastala á hæstu hæð bæjarins, sem bæjarbúar síðan nýttu í mörg ár gegn árásum innrásarherja.
Þótt kastalinn sé fallinn er bærinn enn að heyja sín varnarstíð. Nú er það nútíminn, stafrænar byltingar, ferðamenn og alþjóðavæðing sem herja á bæinn. Tíminn lætur ekkert í friði. Risastórir stórmarkaðir hafa hreiðrað um sig umhverfis bæinn eins og rómverskur her og dregið máttinn úr öllum smáverslunum.
„Allar litlu búðirnar eru að hverfa. Þetta er orðinn svefnbær, hann var á margan hátt litríkari og skemmtilegri þegar hann var minni og fátækari,“ segir Anne.
Rue du Commerse - Verslunargata
Bókabúðin er við Rue du Commerce, eða Verslunargötu, sem varla stendur undir nafni lengur. Þarna hafa verið markaðir og litlar verslanir í gegnum aldirnar; nú standa þær flestar auðar eða þeim verið breytt í íbúðir.
Þarna er þó enn bakaríið sem stofnað var 1884, lítil sérviskuleg hljóðfæraverslun, búð sem selur ólívuolíur; þarna eru gardínusalinn og bólstrarinn sem eiga lítið að gera í IKEA stórveldið og draga segl sín smátt og smátt saman. Þrátt fyrir að bæjarbúar reyni eftir fremsta megni að versla við bændur á markaðnum, kaupa kjöt af slátraranum og brauð af bakaranum, er Golíat samt sem áður að taka slaginn að þessu sinni.
Rue du Commerce, eða Verslunargatan, í Gex. Mynd: FE
Bóksalinn í Gex hefur reynt eftir fremsta megni að aðlagast breyttum aðstæðum: boðið upp á þráðlaust net, enskar bækur sem og spænskar, þýskar jafnt sem franskar bækur. Ljúfir smáréttir og kökur með kaffinu. Hjónin hafa skipulegt menningarviðburði af ýmsu tagi. Alex segir að þetta sé fyrst og fremst ástríða. „Konan mín elskar bækur, hún hreinlega gleypir þær í sig og langaði alltaf að stofna bókabúð. Ólst upp á miklu bókaheimili. Við erum þakklát fyrir þennan tíma, hér inni eigum við dýrlegar minningar. Við munum halda áfram að miðla bókum og munum framvegis selja þær á netinu.“
Bókabúðum fækkar og fækkar
Frakkar eru mikil bókaþjóð og lesa mikið. Öfugt við aðrar þjóðir hafa pappírsbækur haldið velli gagnvart rafbókum – alla vega um sinn. En spjaldtölvur og rafbækur sækja hratt á sem veldur því að bókabúðum fækkar og fækkar. Þetta er sama þróun og um alla Evrópu og í Bandaríkjunum. Stöðugt heyrast áhyggjuraddir yfir minnkandi lestri barna og unglinga. Bóksala á Íslandi hefur til að mynda dregist saman um 19 prósent að raunvirði frá árinu 2008. Eins og í Frakklandi hefur bókabúðum á landsbyggðinni fækkað ört. Þar hafa stórmarkaðirnir tekið við bóksölunni og einungis boðið upp á vinsælustu titlana. Örvæntingarfullir bóksalar reyna að bregðast við kalli tímans og breyta búðum í bókakaffi og safnarabúðir.
Bókabúðir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í frönsku þjóðlífi. Napóleon var mjög umhugað um þær og setti lög um bókabúðir sem gerði þær kröfur að bóksalar væru geðþekkir, menntaðir og víðsýnir. Þegar leyfi voru gefin út voru bóksalar látnir sverja eið þess efnis að þeir myndu þjóna upplýsingunni og frönsku þjóðinni af alúð og eljusemi.
Innan úr bókabúð þeirra hjóna í Gex. Mynd: FE
Hjónin Anne og Alex í L´Archipel Des Mots er meðvituð um þetta. „Nú þurfum við að finna nýja vinnu. En við gefumst ekki upp; við erum alltaf tilbúin að skipuleggja bókakynningar og ljóðaupplestur og að miðla bókum. Þetta eru engin endalok þótt ákveðnum kafla sé nú lokið.“