Sif Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri menningarmála á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar, verður næsti forsetaritari. Niðurstaða forseta Íslands og forsætisráðherra varð sú að Sif væri hæfust umsækjenda til þess að hljóta skipun í embættið. Frá þessu er sagt á vef stjórnarráðsins í dag.
Embætti forsetaritara var auglýst laust til umsóknar 27. nóvember 2020 og bárust alls 60 umsóknir um embættið. Forsætisráðherra skipaði ráðgefandi hæfnisnefnd í janúar 2021 til að meta hæfni umsækjenda.
Á vef stjórnarráðsins segir að 33 umsækjendum hafi verið boðið að leysa skriflegt verkefni og af þeim var síðan 17 umsækjendum boðið í viðtal við nefndina auk þess sem leitað var umsagna um þá.
Hæfnisnefnd skilaði forseta Íslands og forsætisráðherra greinargerð þann 8. mars sl. og þar var því lýst að átta umsækjendur væru allir mjög vel hæfir til að gegna embættinu. Að lokinni skoðun á greinargerð hæfnisnefndar og öðrum gögnum málsins var ákveðið að bjóða þeim átta umsækjendum sem metnir voru mjög vel hæfir í framhaldsviðtal.
Niðurstaðan varð á endanum sú að Sif þykir hæfust.
Hún er með BA-próf í danskri tungu og bókmenntum frá Háskóla Íslands og meistarapróf í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum, auk þess sem hún lauk diplómanámi í rekstrarhagfræði við Háskóla Íslands árið 2006.
Sif var forstöðumaður Höfuðborgarstofu á árunum 2007-2013 og forstöðumaður Norræna hússins í Færeyjum á árunum 2013-2018. Þá hefur hún einnig fengist við kennslu og dagskrárgerð fyrir hljóðvarp, auk núverandi starfa sinna hjá Reykjavíkurborg.
Örnólfur kveður eftir rúma tvo áratugi við forsetaembættið
Örnólfur Thorsson, sem starfað hefur hjá forsetaembættinu frá árinu 1999 og verið forsetaritari frá árinu 2005, greindi frá því seint á síðasta ári að hann myndi hverfa til annarra starfa. Til stendur að hann verði nýjum forsetaritara innan handar til 1. ágúst.
Í starfsauglýsingunni kom fram að forsetaritari stýrði embætti forseta Íslands undir yfirstjórn forseta. Starfið fæli meðal annars í sér stjórn fjármála, mannauðs og daglegra starfa á skrifstofu forseta og Bessastöðum. Þá annast forsetaritari samskipti við Alþingi, ráðuneyti, fjölmiðla og sendiherra erlendra ríkja.