Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV, verður í öðru sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum. Þetta staðfesti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins og oddviti hans í Kraganum, í samtali við Kjarnann. Elín Anna Gísladóttir, rekstrarverkfræðingur verður í þriðja sæti listans.
Þetta var ákveðið að fundi uppstillingarnefndar Viðreisnar í kjördæminu í hádeginu í dag.
Jón Steindór Valdimarsson var í öðru sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu í síðustu kosningum en hann verður í öðru sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður í haust. Sigmar segir í fréttatilkynningu að hann hafi unnið í fjölmiðlum í nærri 30 ár og fjallað mikið um pólitík í mínum störfum. „Það er því mjög spennandi fyrir mig að söðla um og vera virkur þátttakandi í stjórnmálum þótt það verði vissulega erfitt að kveðja minn gamla vinnustað sem hefur gefið mér svo mikið. Mínar skoðanir fara vel saman við stefnu Viðreisnar, þar sem frjálslyndi er lykilhugtak, auk þess sem ég hef mikið álit á fólkinu sem hefur borið uppi starfið þar. Flokkurinn vill stokka upp gömul kerfi og setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum og ég hlakka til að leggja mín lóð á vogaskálarnar í þeirri baráttu.“
Það þýðir að Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði sem kjörinn var varaformaður Viðreisnar í fyrra, mun ekki leiða lista flokksins í komandi kosningum. Hann verður í öðru sæti á lista flokksins í Reykjavík suður. Jón Steindór er svo, líkt og áður sagði, í 2. sæti á lista flokksins í Reykjavík norður og færir sig því um kjördæmi.
Framboðslisti Viðreisnar í Suðvesturkördæmi:
- Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hafnarfjörður
- Sigmar Guðmundsson fjölmiðlamaður. Garðabær
- Elín Anna Gísladóttir verkfræðingur. Mosfellsbær
- Thomas Möller, verkfræðingur og ráðgjafi. Garðabær
- Ástrós Rut Sigurðardóttir þjónustufulltrúi. Hafnarfjörður
- Rafn Helgason, umhverfis- og auðlindafræðingur. Garðabær
- Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður. Kópavogur
- Jón Ingi Hákonarson bæjarfulltrúi. Hafnarfjörður
- Sigrún Jónsdóttir flugfreyja. Hafnarfjörður
- Guðlaugur Kristmundsson þjálfari. Garðabær
- Kristín Pétursdóttir, sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hafnarfjörður
- Ívar Lilliendahl læknir. Mosfellsbær
- Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir sölufulltrúi. Hafnarfjörður
- Hermundur Sigurðsson raffræðingur. Hafnarfjörður
- Soumia I Georgsdóttir framkvæmdastjóri. Kópavogur
- Þórólfur Heiðar Þorsteinsson lögmaður. Kópavogur
- Sigríður Sía Þórðardóttir forstöðumaður. Kópavogur
- Jón Gunnarsson háskólanemi. Garðabær
- Auðbjörg Ólafsdóttir, yfirmaður samskipta. Hafnarfjörður
- Páll Árni Jónsson stjórnarformaður. Seltjarnarnes
- Steinunn Ása Þorvaldsdóttir dagskrárgerðarkona. Reykjavík
- Magnús Ingibergsson húsasmíðameistari. Mosfellsbær
- Þórey S Þórisdóttir doktorsnemi. Hafnarfjörður
- Eyþór Eðvarðsson ráðgjafi. Álftanes
- Theodóra S Þorsteinsdóttir, fyrrverandi alþingismaður. Kópavogur
- Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra. Reykjavík