Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að við þær aðstæður sem nú eru uppi væri æskilegt, og jafnvel nauðsynlegt, að mynda einhvers konar þjóðarsátt. Hann var í viðtali vegna kjarasamninga.
Sigmundur segir að það sé tómt mál að tala um atbeina stjórnvalda við gerð kjarasamninga sem myndu leiða til verðbólgu og óstöðugleika. Ef ákveðið yrði að gera það sem hann kallar kaupmáttarsamninga horfi það öðruvísi við. Þá sé ríkisstjórnin tilbúin að bæta við kaupmáttaraukningu með lækkun skatta, gjaldtöku og með breytingu á tollum á fatnaði.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var einnig í viðtali á RÚV. Hann segir að húsnæðisfrumvörp ríkisstjórnarinnar og gerð kjarasamninga tengist ekki neitt, þótt stjórnvöld haldi því fram. Úrbætur í húsnæðismálum séu mikilvægar, en tengist ekki samningunum. „Það að lágtekjuhópar innan ASÍ séu að gera kjarasamninga, það er ekkert tengt því að hér verði komið á einhverju húsnæðiskerfi, ekkert frekar en ríkisstjórnin ræddi það við einhverja aðra hópa sem voru að semja hér á undanförnum mánuðum og misserum,“ segir Gylfi.
Bæði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafa talað um að húsnæðisfrumvörp ríkisstjórnarinnar séu innlegg stjórnvalda inn í kjaraviðræður. Fleiri hafa talað um að ríkisstjórnin eigi að koma að kjarasamningum í formi tillaga í húsnæðismálum, til dæmis Gylfi Zoega hagfræðiprófessor. Samtök atvinnulífsins hafa einnig talað fyrir mikilvægi þess að atriði sem tengjast fasteignamarkaðnum séu hluti af þessum málum.