„Tugprósenta hækkun stjórnarlauna í fyrirtækjum eru kolröng og óábyrg skilaboð inn í samfélagið á þessum tíma. Við þurfum sameiginlega að byggja upp þjóðfélag festu og stöðugleika og slíkar hækkanir hjálpa ekki til við það,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í dag. Ástandið á vinnumarkaðnum var aðalumfjöllunarefni forsætisráðherra í ræðu sinni.
Auk hækkunar á stjórnarlaunum gagnrýndi forsætisráðherra umræðu um hækkun á bankabónusum. „Óskir um fjórfalda hækkun bankabónusa er af sama meiði. Bankakerfi í höftum, varið að mestu fyrir erlendri samkeppni, býr ekki til slík verðmæti að það réttlæti að launakerfi þess séu á skjön við aðra markaði og réttlætiskennd almennings.“
Sigmundur sagði stöðu efnahagsmála á Íslandi góða og möguleikar til áframhaldandi kaupmáttaraukningar mikla. Hann sagði jafnframt að launaþróun hefði verið „merkilega“ lík á milli stétta undanfarin ár. „Helstu breytingarnar eru þær að lægri laun hafa hækkað meira en meðallaunin, laun verkafólks hafa hækkað meira en stjórnenda og laun kvenna hafa hækkað meira en laun karla. Fá lönd eru nú með meiri tekjujöfnuð en Ísland.“
Sigmundur sagði ólgu á vinnumarkaði nú stafa af því að „loksins sé eitthvað til skiptanna og allir vilji fá sinn réttmæta hlut af nýrri verðmætasköpun.“ Það sé langtímaverkefni að vinna að aukinni kaupmáttaraukningu með aukinni framleiðslu og framleiðni. „Ríkisstjórn getur stutt við slíka þróun, en fyrst og fremst er það í valdi aðila vinnumarkaðarins að ná því fram. Það ætti flestum að vera ljóst að á þennan hátt, og þennan hátt einan, er hægt að bæta lífskjör varanlega.“
Ríkisstjórnin væri reiðubúin að taka þátt í skynsamlegum aðgerðum sem gætu leitt til kjarasamninga sem ekki ógni stöðugleika, en hún muni „leggjast á árarnar með aðilum vinnumarkaðarins“ um að ekki verði gerðir verðbólguhvetjandi kjarasamningar. „Verðbólgusamningar leiða til minni kjarabóta fyrir launþega, meiri og síendurtekinna átaka og endurtekinna leiðréttinga á vinnumarkaði, hækkunar verðtryggðra skulda og gengislækkunar. Allt bitnar þetta á samfélaginu öllu en verst á fólki með lægri- og millitekjur. Við yrðum mörg ár að vinna okkur út úr slíkum vanda og því megum við ekki kalla hann yfir okkur.“