„Þetta er við fyrstu sýn sláandi,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtali við þáttinn Í bítið á Bylgunni í morgun, þar sem gögn um endurreisn nýju bankanna og samninga við kröfuhafa voru til umræðu, meðal annars út frá gögnum sem Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stór eigandi BM Vallár, hefur aflað sér og sent á Alþingi og fjölmiðla. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Sigmundur Davíð sagði í viðtalinu að með þessum samningum, hefðu gríðarlegar fjárhæðir, sem hægt væri að meta upp á mörg hundruð milljarða króna, verið færðar til kröfuhafa. Hann boðaði enn fremur rannsókn Alþingis á málinu, og sagði það grafalvarlegt. Var spjótunum ekki síst beint að eftirlitsstofnunum ríkisins, opinberum starfsmönnum og ráðherrum í fyrrverandi ríkisstjórn, ekki síst Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi fjármálaráðherra, og nú þingmanni Vinstri grænna.
Í frétt Morgunblaðsins er meðal annars haft eftir Víglundi að stórfelld brot á almennum hegningarlögum hafi verið framin af stjórnvöldum. „Í greinargerðinni leiði ég líkur að því að framin hafi verið stórfelld brot á almennum hegningarlögum, stjórnsýslulögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um fjármálaeftirlit og ef til vill fleiri lögum. Sýnist mér hugsanlegt að ólögmætur hagnaður skilanefnda/slitastjórna af meintum fjársvikum og auðgunarbrotum kunni að nema á bilinu 300 - 400 milljörðum króna í bönkunum þremur,“ segir Víglundur.