Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins gerði skoðun Bjarna Benediktssonar efnahags- og fjármálaráðherra á Íslandsbankasölunni að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Ráðherrann hefði ítrekað lýst yfir ánægju sinni með það hvernig tekist hefði til við sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Spurði Sigmundur Davíð því ráðherrann hvers vegna hann hefði ákveðið að bregðast við með því að leggja til að Bankasýslan yrði lögð af. „Hvers vegna var þá ákveðið að bregðast við gagnrýni á söluna með því að leggja niður Bankasýsluna?“ spurði hann. Hann spurði enn fremur hvort þessi áform hefðu verið rædd í ríkisstjórn og kynnt í ráðherranefnd um efnahagsmál.
„Hvað tekur við? Hvað tekur við þegar þessi áform ganga eftir og Bankasýslan verður lögð niður? Varla getur verið að þeir ráðherrar sem tóku þessa ákvörðun um þessi áform hafi ekki haft neinar hugmyndir um hvað ætti að taka við. Verður stofnuð ný Bankasýsla til að viðhalda þessum svokölluðu armslengdarsjónarmiðum? Verður verkefnið fært inn á borð ríkisstjórnarinnar? Hvað tekur við? Við hljótum að æskja svara um það í ljósi þessarar skyndilegu en afdráttarlausu yfirlýsingar frá að minnsta kosti þremur hæstvirtum ráðherrum,“ sagði hann.
Segist ekki hafa gefið bankann
Bjarni svaraði og sagðist vera ánægður með meginniðurstöðu í sölunni á hlutabréfunum í Íslandsbanka þegar horft væri til þess hvað stæði í lögunum og hvað ríkisstjórnin sagðist ætla að gera.
„Ég held að við höfum bara náð mjög vel öllum meginmarkmiðum okkar í að tryggja dreift eignarhald, fá almenning sem hluthafa, fjölbreyttan eigendahóp. Þetta hefur í öllum aðalatriðum bara tekist mjög vel. Ég held að það væri erfitt að fullyrða að ef einhver hefði haft þessa niðurstöðu í höndunum, bæði um verðið og um hluthafalistann, fyrir ári síðan þegar við vorum að ræða það að fara að skrá bankann á markað hefði hann með rökum getað haldið því fram að þetta væri nú alveg ómöguleg niðurstaða.
Við erum að selja banka núna á 50 prósent hærra verði en við gerðum fyrir tæpu ári síðan en samt mæta hér ákveðnir þingmenn og halda ræður og taka stöðu í hópi með fólki úti á Austurvelli þar sem hrópað er: Við erum að gefa bankann. Auðvitað stenst þetta ekki skoðun. Hvers vegna þá að gera breytingu til framtíðar? Ja, ef háttvirtur þingmaður var að hlusta á þingmenn sem hafa gerst hér miklir lögspekingar og fræða okkur um það hvernig hin eina rétta túlkun á lögunum um Bankasýsluna á að vera, þá held ég að hann hljóti að hafa séð að það eru uppi núna mjög skiptar skoðanir um það, meðal annars hvernig hlutverkaskipti eiga að vera milli ráðherra, ríkisstjórnar, ráðherranefndar og Bankasýslunnar varðandi framkvæmd á sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum,“ sagði Bjarni.
Benti hann á að Bankasýslunni hefði upphaflega verið komið á laggirnar til bráðabirgða til að losa hratt og örugglega um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
„En svo breyttust tímarnir. Það sem við erum fyrst og fremst að segja hér er að við munum leggja til við Alþingi að við förum nýjar leiðir þegar frekari skref verða stigin í framtíðinni við það að losa um eignarhald ríkisins á Íslandsbanka,“ sagði Bjarni.
Spurði sömu spurninga aftur
Sigmundur Davíð kom aftur í pontu og sagði að ráðherranum hefði ekki unnist tími til að svara spurningunum og því ítrekaði hann þær. „Því að þetta hljómar eins og þrír hæstvirtir ráðherrar hafi hist á fundi um páskana og sagt: „Eitthvað þurfum við að gera. Þetta er eitthvað, gerum það.““
Hann sagði að ekki lægju fyrir áform um hvað ætti að taka við. „Var þetta kynnt á ríkisstjórnarfundi? Var þetta rætt í ráðherranefnd um efnahagsmál?“
Hann spurði aftur: „Liggur eitthvað fyrir um hvað eigi að taka við eða voru þetta bara fálmkennd viðbrögð til að bregðast við gagnrýni á söluna?“
„Við munum áfram tryggja fagmennsku“
Ráðherrann svaraði í annað sinn og sagði að varðandi fyrirkomulag á sölu hluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum þá hefðu þau rætt það í ríkisstjórn – hann hefði rætt það í ríkisstjórn.
„Ég hef meira að segja lagt til við Alþingi hér á fyrri þingum að gera breytingar á því. Og varðandi ólíka möguleika til þess að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum þá hefur það borið á góma í ráðherranefnd. En alveg eins og við höfum ekki lagt til við Alþingi útfærða tillögu þá höfum við ekki heldur rætt hana í ríkisstjórn eða í ráðherranefnd. En málið hefur borið á góma.
Þegar spurt er um nákvæmlega hvernig við munum gera þetta – það sem við munum gera er að við munum áfram tryggja að ekki verði sendir stjórnmálamenn inn í stjórnir ríkisbanka eða fyrir hönd ríkisins inn í banka þar sem ríkið fer með eignarhald. Við munum áfram tryggja fagmennsku í því hvernig staðið verður að skipan í stjórnir, alveg eins og Bankasýslan hefur gert ágætlega samkvæmt lögum. Síðan munum við hins vegar taka til skoðunar alla aðra kosti en þá sem felast í leið Bankasýslunnar til að losa um eignarhluti og virða fyrir okkur og koma með tillögu inn í þingið.“