„Staða heimilanna hefur haldið áfram að batna,“ segir Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands. Nýjasta útgáfa fjármálastöðugleika var kynnt í morgun, í henni kemur fram að skuldir heimila hér á landi séu nú 90,5 prósent af landsframleiðslu, en staðan hefur batnað hratt undanfarin misseri. „Hagur heimilanna hefur vænkast nú fjögur ár samfellt en slíka þróun mátti einnig sjá árin fyrir fjármálaáfallið. Forsendur fyrir bættum hag eru hins vegar sjálfbærari nú en fyrir fjármálaáfallið, þar sem skuldsetning heimila jókst umtalsvert þá og aðrir þættir voru neikvæðir eins og mikill viðskiptahalli og mikið innflæði fjármagns hefur minnkað mikið og afgangur er á viðskipum við útlönd,“ segir í umfjöllun um skuldamál heimilanna í skýrslunni.
Hér má sjá yfirlit, yfir stöðu mála.
Sigríður sagði allt benda til þess að áframhald verði á betri hag heimilanna á næstunni, en erfitt væri þó að spá fyrir um hvernig mál myndu þróast, meðal annars vegna áhættuþátta sem snéru að losun fjármagnshafta og verðbólguhorfum almennt.
Hrein eign heimilanna sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hefur aldrei verið hærri en í árslok 2014 en áætlað er að hlutfallið hafi verið 505 prósentur í árslok. Til samanburðar þá var hlutfallið um 380 prósentur í árslok 2008 og um 300 prósentur í árslok 1997. Aukning á hreinni eign heimila á árinu 2014 má helst rekja til hækkunar á fasteignaverði og lækkun skulda en um síðustu áramót er áætlað að skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi verið um 207 prósent en hæst var það 270 prósent 2010.