Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður á RÚV, sigraði í kjöri til formanns Blaðamannafélags Íslands í kosningu sem lauk á miðnætti.
Sigríður fékk 171 atkvæði eða 54,6 prósent greiddra atkvæða. Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi, fékk 130 atkvæði eða 41,5 prósent greiddra atkvæða. Auðir seðlar voru 12 eða 3,8 prósent atkvæða. Alls voru 553 á kjörskrá og atkvæði greiddu 313 þannig að kjörsókn var 56,6 prósent.
Sigríður hefur unnið við blaða- og fréttamennsku frá árinu 1999 þegar hún lauk námi í hagnýtri fjölmiðlun og hóf störf á Morgunblaðinu. Þar var hún fyrst fastráðin og síðan lausráðin sem fréttaritari í London til ársins 2002.
Í London vann hún við fjölmiðla og almannatengsl þangað til hún kom aftur heim til Íslands árið 2004 og hóf störf á Fréttablaðinu þar sem hún starfaði til ársbyrjunar 2007. Þá stofnaði hún og eiginmaður hennar, Valdimar Birgisson, vikublaðið Krónikuna. Í framhaldinu fór hún til starfa á DV en síðan í almannatengsl hjá Mosfellsbæ, stofnaði eigið almannatengslafyrirtæki og fór loks á Fréttatímann þar sem hún varð ritstjóri til ársins 2014. Eftir nokkurra ára hlé frá fjölmiðlastörfum hóf hún störf sem fréttamaður hjá RÚV árið 2017.
Hjálmar Jónsson, sem verið hefur formaður Blaðamannafélags Íslands frá árinu 2010, tilkynnti í haust að hann myndi ekki bjóða sig fram að nýju. Hann hefur einnig verið framkvæmdastjóri félagsins àrum saman en Sigríður sagði á framboðafundi í síðustu viku að hún vildi að það starf yrði auglýst laust til umsóknar næði hún kjöri.