Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hyggst bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnassyni sitjandi formanni Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fram fer um helgina. Þetta hefur Kjarninn fengið staðfest.
Sigríður er formaður velferðarnefndar Alþingis og hefur átt sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar frá árinu 2009.
Í síðasta þjóðarpúlsi Gallup mældist Samfylkingin með 17,1 prósents fylgi á landsvísu, og lækkaði um 1,4 prósent á milli kannanna. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 15,5 prósent samkvæmt könnun MMR á fylgi flokkanna, sem birt var í dag, borið saman við 14,5 prósent í síðustu könnun.
Í Alþingiskosningunum 2013 galt flokkurinn afhroð og hlaut 12,9 prósent atkvæða, og tapaði tæpum sautján prósentustigum frá síðustu kosningum.