Lögmennirnir Sigríður Rut Júlíusdóttir og María Thejll hafa verið metnar hæfastar til að gegna tveimur embættum dómara sem munu hafa fyrstu starfstöðvar við Héraðsdóm Reykjavíkur annars vegar og Héraðsdóm Reykjaness hins vegar.
Embættin voru auglýst laus til umsóknar 9. júlí og alls bárust átta umsóknir um fyrrnefnda embættið en sjö umsóknir um hið síðarnefnda, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Enn umsækjenda, Björn Þorvaldsson, dró umsókn sína til baka, en hann var skipaður í annað auglýst embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur síðla sumars.
Í umsögn dómnefndar segir að Sigríður Rut hafi um 20 ára skeið starfað sem lögmaður og lengst af verið einn af eigendum lögmannsstofu, sem hún stofnaði ásamt öðrum 2002, en það er lögmannsstofan Réttur. Á þeim tíma hafi hún flutt fjölda viðamikilla mála fyrir dómi, þar á meðal fyrir Hæstarétti og Landsrétti.
Um Maríu segir að hún hafi starfað í nær 13 ár sem lögmaður, þar af frá árinu 2017 hjá embætti ríkislögmanns og flutt fjölda mála fyrir dómi, þar á meðal vandasöm mál fyrir Landsrétti og Hæstarétti í núverandi starfi sínu. María var áður forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands frá 2003-2016 og forstöðumaður Mannréttindastofnunar sama skóla frá 2005-2016.