Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur verið ráðin til starfa sem upplýsingafulltrúi félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Tekur Sigríður við starfinu af Grétari Sveini Theódórssyni, sem hafði sinnt starfinu frá árinu 2020.
Staðan var ekki auglýst og var raunar síðast auglýst árið 2019, en heimild er í lögum til þess að ráða fólk tímabundið í störf á vegum hins opinbera til allt að tveggja ára, þrátt fyrir að meginreglan sé sú að laus störf skuli auglýst.
Sigríður er fyrrverandi aðstoðarmaður Guðmundar Inga Guðbrandssonar núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, en hann fékk hana til aðstoðar árið 2018 er hann var á sínu fyrsta starfsári sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Gegndi hún því starfi í rúmt ár.
Áður en Sigríður varð aðstoðarmaður ráðherra hafði hún verið upplýsingafulltrúi hjá UNICEF á Íslandi frá árinu 2011, en frá aldamótum hafði hún starfað sem blaðamaður, ýmist í lausamennsku, í fullu starfi eða meðfram námi.
Hún er höfundur bókarinnar Ríkisfang: Ekkert sem fjallar um hóp palestínskra kvenna og barna sem flúðu Írak og enduðu á Akranesi, en bókin var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna auk þess að hljóta verðlaun Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna.
Sigríður er með BA-próf í heimspeki frá Háskóla Íslands, með mannfræði sem aukagrein, og meistarapróf í þróunar- og átakafræðum frá University of East Anglia í Bretlandi.