Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, boðar stofnun stýrihóps til að móta húsnæðisstefnu fyrir Ísland á næstu dögum. Stefnan verður svo lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunar. „Ef mín áform ganga eftir verður lagður grundvöllur að því að hér á landi verði hægt að stórauka húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og jafnvel horft til þess að setja markið á að það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings. Við erum með skýr markmið.“
Þetta kemur fram í grein sem Sigurður Ingi skrifar í Morgunblaðið í dag.
Miklar hækkanir en sögulega lítið framboð
Staðan á húsnæðismarkaði hefur verið þannig síðustu tæpu tvö árin að eftirspurn hefur verið mun meiri en framboð. Verð hefur hækkað skarpt, alls um 16,6 prósent síðastliðið ár. Meðalkaupverð hefur hækkað um fimm milljónir króna á tveimur mánuðum á höfuðborgarsvæðinu.
Allir benda á aðra
Þeir sem bera ábyrgð á húsnæðismarkaði hafa bent hver á annan þegar spurt er hverju sé um að kenna. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur til að mynda sagt að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verði að brjóta land og auka framboð til að auka framboð. Samtök iðnaðarins, sem gæta meðal annars hagsmuna byggingarverktaka, hafa einnig haldið þessum málflutningi á lofti.
Stærstu sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavík, hafa á móti bent á á móti að aldrei hefur verið meira byggt en undanfarin ár. Framboðsskortur sé ekki endilega meginástæðan. Undir það hefur HMS tekið. Á Alþingi hefur stjórnarandstaðan kallað eftir því að ríkið ráðist í stórfelldar aðgerðir til að mæta stöðunni sem er á húsnæðismarkaði og bent á að nær allar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum á undanförnum árum hafi snúið að því að auka eftirspurn, ekki framboð. Eru þar nefndar leiðir eins og Leiðréttingin, skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar til íbúðakaupa, Fyrsta fasteign og hlutdeildarlán. Þetta hafi leitt til hækkunar á verði.
Bent hefur verið á að ákvarðanir Seðlabanka Íslands um stórfelldar stýrivaxtalækkanir og tímabundið afnám sveiflujöfnunarauka, sem færði bönkum landsins stóraukið svigrúm til að lána til íbúðarkaupa, ásamt lækkun bankaskatts hafi haft mikil ruðningsáhrif á markaðinn og verið undirstaðan í miklum hagnaði bankanna á síðustu árum. Útlán til heimila hafa aukist um mörg hundruð milljarða króna vegna þessa.
Vill leggja ágreining til hliðar
Í grein Sigurðar Inga segir að það hafi ekki farið fram hjá neinum að þeir aðilar sem beri sameiginlega ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaði séu ekki sammála um ástæður þessara miklu hækkana. „Að mínu mati er ljóst að þessi ágreiningur mun ekki skila okkur neitt áfram og veldur óásættanlegri pattstöðu. Nú er tíminn til að leggja þennan ágreining og þessar skærur til hliðar. Fortíð er fortíð og nú verðum við, ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og byggingariðnaðurinn að horfa fram á veginn og skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.“
Það sé hins vegar ljóst að allir þeir sem koma að húsnæðismálum þurfi að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu sem sé fram undan.