Síldarvinnslunni var gert að greiða 64,3 milljónir króna í viðbótarskattgreiðslur fyrr á þessu ári eftir að Skatturinn framkvæmdi svokallað stórfyrirtækjaeftirlit á skattskilum fyrri ára hjá félögum í samstæðu hennar. Frá þessu er greint í árshlutareikningi Síldarvinnslunnar sem skilað var inn til Kauphallar Íslands í síðustu viku.
Þar segir enn fremur að eftirlitsaðgerðum sé að fullu lokið hjá Síldarvinnslunni og dótturfélagi hennar Runólfi Hallfreðssyni, en að hluta hjá öðru dótturfélagi, Bergi-Huginn. Viðbótarskattgreiðslan gjaldfærð í bókum Síldarvinnslunnar á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs.
Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar á fyrri hluta ársins 2021 voru um 5,8 milljarðar króna. Hagnaður félagsins var 3,9 milljarðar króna og skýrist að stórum hluta af því að félag utan um stóran hlut í tryggingafélaginu Sjóvá var fluttur til hluthafa hennar með arðgreiðslu í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar á markað fyrr á árinu. Bókfært verð félagsins, SVN eignafélags, var 3,7 milljarðar króna en verðmæti hans á arðgreiðsludegi var 2,9 milljörðum krónum meira. Sá munur bókfærðist því sem hagnaður.
Aflaheimildir verðmætasta eignin
Eignir Síldarvinnslunnar eru metnar á samtals 74,4 milljarðar króna, skuldir 26,2 milljarða króna og eigið fé samstæðunnar var 48,2 milljarðar króna.
Útgerðarfélagið er að stærstum hluta í eigu Samherja og Kjálkaness, félags í eigu fjölskylduna sem á útgerðarfyrirtækið Gjögur, sem eiga samtals 54,37 prósent.
Verðmætasta bókfærða eignin sem Síldarvinnslan heldur á eru aflaheimildir. Þær eru bókfærðar á 34 milljarða króna. Ef miðað er við markaðsvirði kvóta, út frá síðustu gerðu viðskiptum með aflaheimildir sem dótturfélag Síldarvinnslunnar gerði, þá er ætti markaðsverð allra aflaheimilda sem úthlutað hefur verið að vera 1.195 milljarðar króna. Miðað við Síldarvinnslan og dótturfélög hennar haldi á 7,7 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt síðustu birtu upplýsingum Fiskistofu, þá má ætla að markaðsvirði hans sé 92 milljarðar króna. Eða 58 milljörðum krónum yfir bókfærðu virði.
Til að setja þessa tölu í betra samhengi þá má nefna að heildarmarkaðsvirði Síldarvinnslunnar er 119 milljarðar króna. Upplausnarvirði kvótans sem félagið heldur á er því næstum 80 prósent af markaðsvirði Síldarvinnslunnar.
Afhending hlutabréfa til starfsmanna
Í árshlutauppgjörinu er einnig greint frá því að skráning við sérfræðiþjónustu vegna hlutafjárútboðs Síldarvinnslunnar í maí, þar sem 26,3 prósent hlutur í félaginu var seldur og það síðan skráð á markað, hafi numið um 120 milljónum króna.
Auk þess er tilgreint að gjaldfærður launakostnaður vegna afhendingu eigin hlutabréfa til starfsmanna hafi numið um 325 milljónum króna hjá samstæðunni. Það hafi verið bæði um að ræða afhendingu bréfa til starfsmanna og launabónus egna skattaáhrifa þeirra.
Heildargjaldfærsla við útboðið sem færð var í rekstrarreikning vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, afhendingu hlutabréfa til starfsmanna og launabónusa svo að þeir starfsmenn þyrftu ekki að greiða skatt af þeim hlutabréfum nam því samtals um 445 milljónum króna.