Síminn hefur fengið samþykkt tilboð í útboði Premier League um sýningarréttinn á ensku úrvalsdeildinni í fótbolta frá 2022-2025. Þetta kom fyrst fram á vef Fótbolta.net.
Samkvæmt frétt Vísis um málið buðu Sýn og Viaplay einnig í sjónvarpsréttinn, en svo mjótt var á mununum á milli tilboða miðlanna þriggja að útboðið fór í þrjár umferðir.
Síminn fékk sýningarréttinn á enska boltanum síðla árs 2019, en auglýsingatekjur félagsins og tekjur þess af sjónvarpsþjónustu jukust töluvert í kjölfarið.
Fyrr í ár staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála að Síminn hafi brotið gegn sátt sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2015 um að tvinna ekki saman fjarskiptaþjónustu og línulegri sjónvarpsþjónustu. Það hafi Síminn gert með því að bjóða ólík viðskiptakjör við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport eftir því hvort hann væri boðinn innan Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift.