Sjálfakandi bílar eru orðnir að veruleika og verða komnir í almenningseigu eftir um tíu ár. Þetta er spá Dr. Ralf G. Herrtwich sem stýrir þróun sjálfkeyrandi bíla hjá Mercedes Benz. Hann kynnti þróun Daimler, móðurfélags bílaframleiðandans, á þessari nýju tækni og þær hindranir sem þarf að yfirstíga á haustráðstefnu Advania í Hörpu á föstudag.
Fyrirtækið hefur verið að þróa þessa tækni í þónokkur ár en í samtali við Kjarnann segir Herrtwich skrið hafa komist á þróunina árið 2010. „Þetta fór að rúlla þegar við fórum að skoða þá tækni sem þegar er komin í bílana,“ segir hann. „Sérstaklega hjá okkur þar sem allskonar hjálparbúnaður fyrir ökumenn hefur verið lykilatriðið í að bæta öryggi farþega.“
„Við veltum fyrir okkur þá: hvað er hið eðlilega næsta skref? Bifreiðin býr yfir svo mikilli tækni að við áttuðum okkur á að það væri ekki aðeins hægt að búa til sjálfstýringu á öryggisbúnaði heldur á öllum verkefnunum sem lúta að akstri.“
Nú þegar hefur hluta þessarar nýju tækni verið komið fyrir í bílum frá Mercedes Benz. Herrtwich tekur dæmi af tækni sem kölluð er „Stop & Go“ sem var fyrst seld með bílum fyrir tveimur árum. Með þeirri tækni er bíllinn sjálfstýrður þegar hann er í umferðarteppu og færist aðeins fáeina metra í einu; eitthvað sem öllum bílstjórum þykir gríðarlega leiðinlegt að sinna. „Bíllinn ferðast sjálfur, án þess að ökumaðurinn þurfi að snerta stýrið eða pedalana, upp í 20 kílómetra hraða. Þá biður bíllinn þig um að taka við stjórninni.“
Teymi Herrtwich hefur þurft að takast á við mörg vandamál sem lúta sjálfstýrðum bílnum. Sjálfur sagði hann í fyrirlestri sínum að nú þegar væru bílar orðnir sjálfstýrðir í aðstæðum þar sem ökumenn gera venjulega mistök. Nægir hér að nefna spólvörn eða ABS-hemlalæsikerfi sem dæmi, eða í nýrri bílum skynjara sem stöðva bílinn ef ökumaður er að bakka á kyrrstæðan bíl eða staur. Hins vegar er það æði margt sem ökumenn gera yfirleitt rétt og mun betur en tölvur kunna nú. Öll þau tilvik þurfi að forrita og undirbúa áður en sjálfstýrðir bílar verði almenningseign.
Herrtwich segir þess vegna að á næstu fimm árum verði Mercedes tilbúið með tækni sem gerir ökumönnum kleift að stilla á sjálfstýringu á hraðbrautum, þar sem tiltölulega auðvelt er að kenna bíl að aka. Eftir að minnsta kosti tíu ár verður svo hægt að bjóða upp á sjálfstýringu í borgarumhverfi þar sem hætturnar eru mun víðar og fjölbreyttari. Þar þarf til dæmis að taka tillit til umferðarljósa, gangandi og hjólandi vegfarenda og óskipulagðari bílaumferð.
Hlusta má á samtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.