Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24,1 prósent fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi flokksins hækkar markvert milli mánaða, eða um 2,3 prósentustig, og hefur ekki mælst meira á þessu kjörtímabili. Flokkurinn er þó enn aðeins undir kjörfylgi, en hann fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum fyrir um ári síðan. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda fyrsta landsfund sinn í fimm ár í byrjun næsta mánaðar. Bjarni Benediktsson, sem hefur verið formaður flokksins síðan snemma árs 2009, verður þar sennilega einn í framboði til formanns.
Framsóknarflokkurinn hefur lækkað skarpt á þessu ári, en fylgi hans mældist 18 prósent í vor. Það er nú 13,4 prósent og hefur ekki mælst minna á kjörtímabilinu. Flokkurinn er nú að mælast með 3,9 prósentustigum minna fylgi en hann fékk í síðustu kosningum.
Þriðji stjórnarflokkurinn, Vinstri græn, mælast með 8,2 prósent fylgi og eru sem stendur sjötti stærsti flokkur landsins samkvæmt könnun Gallup. Flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra hefur tapað 4,4 prósentustigum frá síðustu kosningum. Enginn einn flokkur hefur tapað meira fylgi það sem af er kjörtímabili.
Samfylkingin á siglingu
Sá flokkur sem sótt hefur mest í sig veðrið það sem af er kjörtímabili er Samfylkingin. Fylgi hennar mælist nú 16,3 prósent og hefur ekki mælst hærra síðan í janúar 2021. Flokkurinn er nú að mælast með 6,4 prósentustigum meira fylgi en í kosningunum í fyrrahaust og er sem stendur annar stærsti flokkur landsins samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Það er í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili sem það gerist.
Samfylkingin heldur landsfund sinn í lok þessa mánaðar og þar verða formannsskipti. Einn hefur tilkynnt framboð, Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún hefur boðað skýrari stefnu sem byggir á klassískum jafnaðarmannagrunni.
Píratar mælast með 13,6 prósent fylgi sem er fimm prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021. Þeir eru sem stendur að mælast þriðji stærsti flokkur landsins.
Viðreisn mælist svo með 8,5 prósent fylgi, sem er nánast kjörfylgi flokksins, en hann fékk 8,3 prósent í kosningunum í fyrra.
Samanlagt hafa þessir þrír flokkar því bætt við sig 11,6 prósentustigum það sem af er kjörtímabili og myndu fá 38,4 prósent atkvæða ef kosið væri í dag. Það er mjög svipað og þeir mældust með fyrir mánuði síðan þótt fylgið hafi aðeins færst til milli flokka.
Þrír flokkar með í kringum fimm prósent
Þrír flokkar til viðbótar mælast með nægjanlegt fylgi til að ná inn á þing. Því myndu flokkarnir á þingi verða níu ef kosið yrði í dag, en eru nú átta. Af þeim þremur sem eru á mörkum þess að mælast inn nýtur Miðflokkurinn mest stuðnings, eða 5,4 prósent kjósenda. Það er nákvæmlega sama hlutfall og kaus flokkinn í fyrra.
Bæði Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkur Íslands mælast svo með 5,1 prósent fylgi. Sá fyrrnefndi hefur tapað 3,7 prósentustigum á einu ári en sá síðarnefndi bætt við sig einu prósentustigi.
Á vef RÚV kemur fram að könnunin hafi gerð dagana fyrsta september til annars október. Rúmlega ellefu þúsund úr viðhorfahópi Gallups voru í úrtaki en þátttökuhlutfall var 48,3 prósent. Ríflega tólf prósent tóku ekki afstöðu og nær ellefu prósent segjast ekki kjósa eða myndu skila auðu.