Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Bæjarlistans á Akureyri hafa komist að samkomulagi um myndun meirihluta á Akureyri. Málefnasamningur flokkanna verður kynntur 1. júní, að því er kemur fram í tilkynningu frá flokkunum.
Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, segir í samtali við Vísi að stefnt sé að því að Ásthildur Sturludóttir verði áfram bæjarstjóri Akureyrar. Hún var ráðin bæjarstjóri eftir kosningarnar 2018.
Sjö flokkar náðu kjöri í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí síðastliðinn og fljótt varð ljóst að flóknar meirihlutaviðræður voru fram undan. Bæjarlisti Akureyrar, L-listinn, fékk 18,7 prósent atkvæða og bætti við sig einum bæjarfulltrúa og fékk þrjá. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 18 prósent atkvæða og hélt sínum tveimur bæjarfulltrúum. Framsóknarflokkur fékk 17 prósent atkvæða og tvo fulltrúa kjörna. Samfylkingin hélt sínum bæjarfulltrúa og Miðflokkurinn og Vinstri græn eru með einn bæjarfulltrúa. Þá fékk Flokkur fólksins, sem var að bjóða fram í fyrsta skipti á Akureyri, einn mann kjörinn.
Bæjarlistinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta eftir kosningarnar 2018 en í september 2020 tilkynntu fulltrúar í bæjarstjórn að ákveðið hefði verið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið með því var mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. Fyrir kosningarnar í vor lá fyrir að ekki var áframhaldandi vilji fyrir breiðu meirihlutasamstarfi.
Allt er þegar þrennt er
Meirihlutaviðræðum hefur verið slitið í tvígang. Fyrst ræddu fulltrúar Bæjarlistans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar myndun meirihluta en upp úr slitnaði þegar fulltrúar Bæjarlistans sökuðu fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að hafa rofið heiðursmannasamkomulag með því að ræða við fulltrúa annarra flokka.
Við tóku viðræður milli B-,D-,S- og M-lista en Samfylkingin sleit þeim viðræðum í gær og sagði Hilda Jana Gísladóttir, oddviti flokksins í samtali við RÚV að óyfirstíganlegur málefnaágreiningur væri á milli flokkanna, til að mynda í velferðarmálum, umhverfis- og loftslagsmálum og skipulagsmálum.
En allt er þegar þrennt er. Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Bæjarlistinn hafa sex bæjarfulltrúa og mynda því minnsta mögulega meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar sem samanstendur af ellefu fulltrúum.