Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á í dag að fresta fyrirhuguðum landsfundi flokksins, en hann átti að fara fram dagana 27. – 29. ágúst. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti landsfundur flokksins fer fram heldur verður honum frestað um óákveðinn tíma.
Í frétt á vef flokksins segir að þess í stað verði flokksráð Sjálfstæðisflokksins kallað saman sömu helgi á rafrænum fundi. „Er þetta gert í ljósi stöðunnar í útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hér á landi.“
Innan við mánuður er síðan að Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum að 44. landsfundur Sjálfstæðisflokksins myndi loks fara fram síðustu helgina í ágúst, og í aðdraganda komandi þingkosninga sem fara fram 25. september næstkomandi. Það var gert með tilkynningu 9. júlí en skömmu áður hafði ríkisstjórnin ákveðið að fella niður takmarkanir innanlands.
Breyting varð á því í lok júlí þegar ný bylgja smita reið yfir landið og nýjar takmarkanir settar á og nú hefur fundurinn verið blásinn af um óákveðinn tíma.