Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fjölluðu um Íslandsbankasöluna í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.
Halldóra ræddi tengsl Bjarna Benediktssonar efnahags- og fjármálaráðherra inn í íslenskt viðskiptalíf en hún sagði þau væru það víðtæk og marglaga að hann hlyti að hafa vitað hverja hann myndi finna á tilboðslistanum í útboði Bankasýslunnar.
„Það bara hlýtur að vera. Hann hlýtur að hafa vitað að hann myndi finna gamla kunningja, jafnvel ættingja, á listanum og að ef hann hefði kannað tilboðin til hlítar hefði kannski komið í ljós að hann væri vanhæfur til að taka ákvörðun um að samþykkja eða hafna tilboðunum. Hans eina undankomuleið var að halda fyrir nefið, kvitta upp á forsíðuna og vona það besta. Ég sé það alla vega fyrir mér þannig,“ sagði hún.
„Sjálfstæðisflokkurinn er nefnilega holdgervingur eitraða kokteilsins. Sjálfstæðisflokkurinn var barþjónninn sem hristi þetta allt saman. Vinstri græn voru einu sinni sammála þessu, það veit ég. Svo sprakk þetta allt saman framan í okkur og það lítur út fyrir að ballið sé rétt að byrja á ný,“ sagði Halldóra og spurði Katrínu hvaða ábyrgð hún bæri á að hafa komið Sjálfstæðisflokknum til valda og komið Bjarna í fjármálaráðuneytið.
Telur að Alþingi eigi að hafa meiri aðkomu
Katrín sagði að hér hefði verið um að ræða ákvörðun sem var tekin og að ákveðin lög væru um það hvernig skuli taka þá ákvörðun.
„Það er ákveðin stofnun sem var sett á laggirnar með lögum sem ber að gera tillögur til ráðherra og gerir slíka tillögu um þetta ferli. Ætlunin með lögunum er að tryggja ákveðna fjarlægð milli hins pólitíska valds og síðan þess framkvæmdaraðila sem fer með söluna. Það var hugsunin á bak við það. Sömuleiðis var ákveðið á sínum tíma að einstakar sölur einstakra hluta skyldu ekki bornar undir Alþingi nema með þeim hætti að óska skyldi umsagnar frá nefndum þingsins.
Ég ætla að leyfa mér að segja það að ég hef efasemdir um að það hafi reynst vænleg leið. Ég tel að Alþingi eigi að hafa meiri aðkomu að þessu máli. Ég held að þegar við horfum á reynsluna og drögum af henni lærdóm þá sé það ekki óeðlileg hugmynd, eins og ég hef viðrað, að Alþingi samþykki til að mynda þegar ákveðið er að selja einstaka hluta og kafi þá ofan í málin. Ég vil hins vegar minna á það að ætlunin með lögunum var að hafa þessa fjarlægð milli hins pólitíska valds og framkvæmdaraðilans. Það var ætlunin og þá verður kakan ekki bæði geymd og borðuð í þessum efnum,“ sagði hún.
Forsætisráðherra réttlæti málið með „einhverju bulli“
Halldóra hóf fyrirspurn sína á að segja að fyrir 14 árum hefði efnahagshrun orðið hér á landi. „Efnahagshrun sem var afleiðing eitraðs kokteils íslensks viðskiptalífs og stjórnmálalífs, kokteils sem við héldum að við hefðum sagt skilið við fyrir fullt og allt. Í kjölfar hrunsins, þar sem ríkið eignaðist skyndilega alla bankana, settum við lög um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum en tilgangurinn var að setja fastmótaðan ramma utan um það hvernig sölumeðferð eignarhluta ríkisins skyldi háttað. Lögin kveða á um skýra lagalega og pólitíska ábyrgð ráðherra á söluferlinu, að fjármálaráðherra sé skylt að skoða og samþykkja öll tilboð í eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum,“ sagði hún.
Benti Halldóra á að þetta ákvæði hefði ekki verið þarna að ástæðulausu og að forsætisráðherra viti það, enda hefði hún setið í þeirri ríkisstjórn sem samdi og samþykkti þessi lög árið 2012.
„Það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að túlkunin sé einhvern veginn öðruvísi en augljós andi laganna var. Í greinargerð með frumvarpinu segir að ráðherra beri ekki að kanna öll tilboðin í almennu útboði. Það stendur þar. Það á ekkert að gera það. En þetta á ekki við um lokuð útboð. Þar ber ráðherra að fara yfir og meta tilboðin.“
Hún sagðist ekki skilja að forsætisráðherra væri „í alvörunni að taka þann pól í hæðina að fara að réttlæta þetta með, ég veit ekki hverju, einhverju bulli“.
„Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að fjármálaráðherra geti selt pabba sínum banka. Það er nákvæmlega ástæðan fyrir þessu ákvæði, til að koma í veg fyrir það en það tókst ekki. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu þann 8. apríl segir að upplýsingar um tilboð eða tilboðsgjafa hafi aldrei verið bornar undir fjármálaráðherra sem þýðir að hann hafi ekki skoðað tilboðin sem honum bar lagaleg skylda til að skoða. Þetta eru rétt rúmlega tvö hundruð tilboð. Við erum ekki að tala um mörg þúsund eins og verið er að reyna að rugla umræðuna með,“ sagði hún og spurði hvort henni fyndist þetta í lagi.
„Og eru það í alvörunni viðbrögð hæstvirts forsætisráðherra að skýla sér á bak við það að það hafi ekki verið andi laganna að fjármálaráðherra tæki ábyrgð og myndi undirrita tilboðin og skoða þau áður en hann gerði það?“
„Þetta er til skoðunar og rannsóknar“
Katrín svaraði og sagði að hún gæti vitnað til þeirra gagna sem hún hefði undir höndum og lægju fyrir varðandi þetta mál.
„Eftir að greinargerð um sölumeðferð liggur fyrir skal ráðherra fela Bankasýslu ríkisins að annast um framkvæmd sölunnar með þeim hætti sem greinargerðin um sölumeðferðina kveður á um. Bankasýslan er því framkvæmdaraðili sölunnar fyrir hönd ríkisins. Hún skal undirbúa sölu, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Ekki er gert ráð fyrir aðkomu ráðherra eftir að hann hefur falið Bankasýslu ríkisins framkvæmd sölunnar fyrr en kemur að því að samþykkja sölu og undirritun samninga. Þá skilar Bankasýsla ríkisins þessu rökstudda mati.
Það er svo að ábyrgð og verkaskipting milli ráðherra og Bankasýslu ríkisins samkvæmt lögunum er með þeim hætti að ekki er ætlast til þess að ráðherra hafi afskipti af sölumeðferðinni eftir að hann hefur falið Bankasýslu ríkisins sölu eignarhlutarins. Það má því segja að þarna sé kveðið á um mjög skýra verkaskiptingu milli ráðherra á hverjum tíma og Bankasýslunnar. Síðan getum við haft skoðun á því hvort ferlið hafi uppfyllt þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í greinargerð. Þá er ég til að mynda að vitnað til þess þegar kemur að skilgreiningu á hæfum fjárfestum og öðru slíku. Þetta er til skoðunar og rannsóknar,“ sagði Katrín.
Ráðherrann sagði – af því að þingmaðurinn spurði hvort henni fyndist þetta í lagi – að henni fyndist mjög mikilvægt að þessi mál væru einmitt öll uppi á borðum og að þau skoðuðu málin til hlítar – að þetta væri rannsakað til hlítar.
„Þess vegna eru tveir aðilar, Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn, að taka þetta mál til skoðunar, af því að við viljum öll að þetta sé í lagi. En það að fella dóm um þetta út frá lögunum, það mun ég ekki gera fyrr en þessar niðurstöður liggja fyrir,“ sagði Katrín.