Fundur flokksráðs og formanna Sjálfstæðisflokksins var haldinn um helgina á Hilton Reykjavík Nordica og á sex öðrum stöðum á landinu samtímis. Á fundinum kom flokksráð og formenn allra félaga og ráða í flokknum saman til að móta stefnu flokksins fyrir næstu kosningar og lauk fundinum með afgreiðslu stjórnmálaályktunar þar sem kosningaáherslur flokksins er að finna undir yfirskriftinni „Land tækifæranna“.
Fyrsta atriðið sem nefnt er undir kosningaáherslum flokksins er ábyrg efnahagsstjórn sem sögð er vera forsenda þess að lífskjör hér á landi haldi áfram að batna. Flokkurinn leggur áherslu á lægri skatta í þágu heimila og fyrirtækja, öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf sem og aukinn fjölbreytileika í menntakerfinu, „til að halda í við öra þróun samfélags og þarfir atvinnulífs.“
Flokkurinn boðar græna orkubyltingu sem felur í sér að Ísland taki forystu í orkuskiptum með því að nýta innlenda orku. Samgöngur skulu auk þess verða nútímalegar, greiðar og öruggar um allt land.
Þá er lögð áhersla á að réttur til heilbrigðisþjónustu verði tryggður, að tryggingakerfi eldri borgara verði endurskoðað frá grunni og að frítekjumark atvinnutekna þeirra verði hækkað í 200 þúsund krónur á mánuði.
Sóttvarnaaðgerðir geti ekki tekið mið af stöðu Landspítala
Í stjórnmálaályktun flokksins segir að slaka þurfi á sóttvarnaaðgerðum, nú þegar nærri öll þjóðin sé orðin bólusett. Nauðsynlegt sé að vega hagsmuni út frá sóttvörnum og efnhags- og samfélagslegum áhrifum. Þar kemur einnig fram að leggja skuli aukna áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir en að huga þurfi um leið sérstaklega að þeim sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma eða eru í viðkvæmri stöðu.
Þar segir að Landspítalinn þurfi að taka mið af faraldrinum hverju sinni frekar en að sóttvarnaaðgerðir taki mið af stöðu spítalans. „Sóttvarnaaðgerðir til lengri tíma geta ekki tekið mið af stöðu Landspítala heldur þarf skipulag og stjórnun spítalans að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma. Auka verður svigrúm heilbrigðiskerfisins til að bregðast við, jafnt fjárhagslega sem skipulagslega. Standa verður áfram vörð um fleira en sóttvarnir þegar kemur að heilsu landsmanna.“
Einkaframtakið virkjað
Flokkurinn leggur áherslu á að sjálfbærni ríkisfjármála til lengri tíma sé tryggt. „Markmiðið er að rekstur ríkissjóðs verði orðinn jákvæður fyrir lok nýs kjörtímabils, fyrst og fremst með auknum útflutningstekjum og umbótum í opinberum rekstri. Leggja ber áherslu á að forgangsraða verkefnum og virkja einkaframtakið betur við veitingu opinberrar þjónustu,“ segir í ályktuninni.
Virkjun einkaframtaksins er ákveðið leiðarstef í stefnunni, enda sé grundvallarstefna flokksins sú „að frumkvæði einstaklingsins fái notið sín samfara ábyrgð á eigin athöfnum.“ Í stefnunni segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft forystu um að fækka ríkisstofnunum og draga úr þátttöku ríkisins á fjármálamörkuðum með sölu á hlutabréfum í bönkum og með því að einfalda regluverk og afnema lög og hundruð reglugerða. „Með því hefur samkeppnisstaða atvinnulífsins verið styrkt og líf einstaklinga einfaldað.“
Útlit er fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vilji halda áfram á sömu braut en sameining Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu er nefnt í kosningastefnu flokksins sem aðgerð sem hægt sé að ráðast í til þess að bæta samkeppnisumhverfi, laga- og regluverk, „þannig að hagsmunir almennings séu alltaf hafðir að leiðarljósi.“ Flokkurinn vill einnig að ríkið dragi úr samkeppnisrekstri sínum og þá ekki síst með því að halda áfram að losa um eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum á næstu árum en eignarhald ríkisins í viðskiptabönkum er um 425 milljarðar um þessar mundir.
Í ályktuninni segir að einfalt þurfi að vera að stofna og reka fyrirtæki og fyrir fyrirtæki að ráða starfsfólk. Skattaumhverfi verði að sníða með þeim hætti að alþjóðleg samkeppnishæfni sé tryggð og þannig að almennt sé ekki þörf fyrir ívilnanir eða afslátt af opinberum gjöldum. Þá er í umfjöllun um ólíka geira, til að mynda ferðaþjónustu, byggingariðnað og matvælaframleiðslu, sagt að huga þurfi sérstaklega að regluverki, þannig að það hafi ekki hamlandi áhrif.
Loftslagsbreytingar eru „tækifæri fyrir bændur“
Samkvæmt ályktun flokksins þarf að nýta sérstöðu Íslands þegar kemur að heilnæmi í matvælaframleiðslu og hreinleika náttúrunnar og leggja frekari grunn að sókn íslenskrar matvælaframleiðslu, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Tryggja þurfi fjölbreytta búskaparhætti á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna og því þurfi sérstaklega að huga að regluverki svo það hamli ekki nýsköpun og framþróun. Þá eru loftslagsbreytingar sagðar vera tækifæri en ekki ógn.
„Landbúnaður er mikilvægur í aðgerðum í loftslagsmálum og getur með hagkvæmum hætti skipt sköpum. Um það verður ekki deilt að loftlagsmál munu leika lykilhlutverk í þróun íslensks landbúnaðar. Hér er ekki um ógn að ræða heldur tækifæri fyrir bændur til að ná fram aukinni hagkvæmni og arðsemi. Allar aðgerðir þurfa að vera mælanlegar og árangur verðmetinn,“ segir í ályktuninni.
Þar segir einnig að það sé nauðsynlegt að gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu. Þá gefi fiskeldi aukin tækifæri til verðmætasköpunar. Einnig segir að atvinnugreinar sem nýti náttúruauðlindir í eigu hins opinbera eigi að greiða hóflegt og sanngjarnt gjald fyrir. Sjálfbær nýting orkuauðlinda byggi undir árangur í loftslagsmálum en samkvæmt ályktuninni er arðsöm uppbygging og nýting auðlinda í sátt við umhverfissjónarmið lykilatriði í framtíðaruppbyggingu hagkerfisins.
Flugvöllur í Vatnsmýri þar til annar er tilbúinn
Flokkurinn vill að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu stofn- og tengivega um land allt og að áætlun verði mótuð um gerð jarðganga til lengri tíma, styrkingu ferjuleiða og viðhald flugvalla og uppbyggingu varaflugvalla. Reykjavíkurflugvöllur er sagður gegna mikilvægu öryggishlutverki fyrir landið allt og því sé „brýnt að hann verði óskertur í Vatnsmýri þar til annar jafn góður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar.“
Flokkurinn vill að einkaaðilar komi að fjármögnun samgönguverkefna en það er sagt geta tryggt hraðari uppbyggingu og betri nýtingu fjármuna.
Ísland verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti
Í umhverfismálum telur flokkurinn að ívilnanir og jákvæðir hvatar séu besta tækið til að fá atvinnulíf og einstaklinga til að dragar úr losun og að skapa þurfi enn frekari hvata til fjárfestinga í grænum lausnum. Þá sé Ísland í lykilstöðu til þess að hverfa frá jarðefnaeldsneyti og taka upp umhverfisvænni orkugjafa. Efnahagslegur ávinningur af því er sagður mikill en samkvæmt ályktuninni kaupa Íslendingar eldsneyti frá útlöndum fyrir um 80 til 120 milljarðar á ári hverju. Flokkurinn vill að Ísland verði fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.
Stofnun miðhálendisþjóðgarðs mátti finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri-grænna og Framsóknar sem setið hefur í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili en ekki kom til stofnunar þjóðgarðsins. Ekki er með öllu ljóst hvað stendur til hjá Sjálfstæðisflokknum í málefnum miðhálendisþjóðgarðs en um hann segir í ályktuninni:
„Uppbygging þjóðgarða á miðhálendi Íslands verður að vera í sátt við sveitarfélög, landeigendur og aðra þá sem nýta og njóta hálendisins. Sé rétt staðið að skipulagi og allri umgjörð þjóðgarða geta þeir ekki aðeins verið hluti af markvissum aðgerðum á sviði náttúruverndar heldur einnig skapað ný tækifæri í atvinnumálum um allt land, ekki síst ferðaþjónustu. Við uppbyggingu þjóðgarða verður að tryggja öruggan raforkuflutning um allt land ásamt sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Þá þarf að tryggja áfram ferðafrelsi um hálendi Íslands, óháð ferðamáta hvers og eins. Eigi að auka umfang þjóðgarða á hálendi Íslands þarf ávinningurinn að vera ljós fyrir þá sem nýta og njóta hálendisins.“
Styrkja þurfi samstarfs milli stofnana og sjálfstætt starfandi í heilbrigðisþjónustu
Flokkurinn telur að hægt sé að bæta þjónustu í velferðar- og heilbrigðisþjónustu með „markvissri samþættingu og samvinnu opinberra og sjálfstætt starfandi aðila“ og að nauðsynlegt sé að móta nýja stefnu á breiðum grunni. Flokkurinn leggur áherslu á að við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur einstaklinga til þjónustu tryggður.
Í ályktuninni segir að nýta þurfi einkaframtakið betur og markvissar á sviði heilbrigðisþjónustu og fjárfestinga. Þá eigi einstaklingar og heilbrigðisstarfsfólk að geta átt fleiri en einn valkost þaegar kemur að sjúkrahússtarfsemi og almennri heilbrigðisþjónustu. Nýsköpun á sviði velferðar- og heilbrigðisþjónustu muni stuðla að aukinni hagkvæmni og gæðum í rekstri sem og tækifæri til aukinna útflutningstekna.
Gera þarf Landspítala kleift að draga úr annarri starfsemi en þeirri sem hann á að sinna með því að efna til og styrkja samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, sérfræðilækna og aðra sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisþjónustu, segir enn fremur í ályktuninni. Landspítalinn eigi að sinna stærri og flóknari aðgerðum. Hann á auk þess að vera leiðandi í sóttvörnum og öryggismálum er varða lýðheilsu og heilsugæslu í landinu.
Hið opinbera greiði með hverjum nema óháð rekstrarformi skóla
Í menntamálum vill Sjálfstæðisflokkurinn meðal annars að háskólanám verði styrkt um allt land og að gæði þess verði tryggð. Grunnskólar eru sagðir eiga að leggja aukna áherslu á list- og verkgreinar og þá þarf skólastarf að huga sérstaklega að börnum með erlent móðurmál og drengjum, enda standi þeir höllum fæti samkvæmt rannsóknum og alþjóðlegum samanburði.
Flokkurinn vill að auk opinbers rekstrar séu „kostir einstaklingsframtaksins nýttir með öflugum sjálfstætt starfandi skólum og nýsköpun á sem flestum sviðum. Hið opinbera á að greiða það sama með hverjum nema, óháð rekstrarformi skólans sem hann sækir.“
Fjallað er um innflytjendamál undir liðnum „Menntun og menning“ í ályktuninni enda auðgi innfletjendur bæði menningu og efnahag, eins og það er orðað í ályktuninni. Að mati floksins þarf að þróa útlendingalöggjöfina áfram af „ábyrgð, raunsæi og mannúð.“ Í ályktuninni segir að auðvelda ætti fólki utan EES, sem getur fengið starf hér á landi, að koma hingað og starfa. Þar að auki segir í ályktuninni að stytta þurfi og einfalda ferla og þau kerfi er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Tilefni til að endurskoða ákveðna þætti stjórnarskrár
Að mati flokksins er tilefni til endurskoðunar ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar, án þess þó að taka upp nýja stjórnarskrá. „Heildarendurskoðun sem umturnar öllum ákvæðum stjórnarskrárinnar samræmist illa sjónarmiðum um réttaröryggi og fyrirsjáanleika.“
Þá vill flokkurinn fjölga lögreglumönnum í landinu, en í ályktuninni segir að þekking, þjálfun, starfsumhverfi og búnaður þurfi að vera í takt við nútímakröfur. Það sé eitt af meginhlutverkum ríkisvaldsins „að tryggja öryggi borgaranna, vernda réttindi þeirra og friðhelgi einkalífs.“