Alls eru 87 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins ánægð með endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf flokksins við Vinstri græna og Framsóknarflokk. Einungis tvö prósent þeirra eru óánægðir með ríkisstjórnina. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Prósent hefur gert fyrir Fréttablaðið og birt er á forsíðu blaðsins í dag.
Innan raða Vinstri grænna er staðan önnur. Þar eru 53 prósent kjósenda ánægðir með ráðahaginn sem flokkurinn valdi sér. Rúmlega tveir af hverjum þremur Framsóknarmönnum eru ánægðir með ríkisstjórnina.
Í könnuninni kemur fram að fleiri eru óánægðir með ríkisstjórnina en ánægðir í öllum aldurshópum fullorðinna undir 44 ára aldri. Hjá eldri kynslóðum, þeim sem eru 45 ára og eldri, snýst þessi staða hins vegar við og þar eru ánægðir fleiri en óánægðir. Andstaðan eykst eftir því sem aðspurðir eru yngri en velþóknunin eykst eftir því sem þeir eru eldri. Þannig segjast einungis 33 prósent 18 til 24 ára ánægðir með ríkisstjórnina en 48 prósent óánægðir, á meðan að 51 prósent þeirra sem eru 65 ára og eldri eru ánægðir en 30 prósent óánægðir.
Sömu sögu er að segja af tekjuhópum. Fleiri í tveimur efstu tekjuhópunum í könnuninni eru ánægðir með stjórn Katrínar Jakobsdóttur en óánægðir en fleiri óánægðir en ánægðir í tveimur lægri tekjuhópunum. Mest er ánægjan í efsta tekjuhópnum þar sem 47 prósent eru ánægð með ríkisstjórnina en 37 prósent óánægð.
Mjög svipuð staða og í kosningunum
Í síðustu könnun sem Gallup gerði á fylgi flokka, sem birt var 2. desember síðastliðinn kom fram að litlar breytingar voru á fylgi flokka milli mánaða
Þar bar helst til tíðinda að fylgi Samfylkingarinnar jókst um 0,9 prósentustig og mældist 10,7 prósent en fylgi Pírata dróst saman um 0,8 prósentustig og mældist slétt ellefu prósent.
Fylgi annarra flokka var nánast það sama og það var í lok október. Stjórnarflokkarnir þrír eru þeir flokkar sem njóta mest stuðnings. Sjálfstæðisflokkurinn mældist áfram sem áður stærsti flokkur landsins með 22,7 prósent fylgi og Framsókn sá næst stærsti með 17 prósent fylgi. Vinstri græn fylgdu þar á eftir með 13 prósent fylgi. Sameiginlegt fylgi ríkisstjórnarflokkanna var því 52,7 prósent, sem er 0,7 prósentustigum minna en mánuði áður og 1,6 prósentustigum minna en flokkarnir þrír fengu samanlagt í kosningunum í september.