Fleiri Skotar eru nú fylgjandi sjálfstæði en á móti því, en kosið verðum um hvort Skotland kljúfi sig frá Bretlandi og verði sjálfstætt ríki á ný þann 18. september næstkomandi. Staðan í baráttunni hefur því snúist alveg ótrúlega á síðustu misserum. Fyrir um ári síðan var hlutfall þeirra sem var fylgjandi sjálfstæði um 30 prósent, hlutfall þeirra sem var á móti um 60 prósent og hlutfall óákveðinna um 10 prósent.
Í fyrsta sinn í forystu í könnunum
Nú, tæpum tveimur vikum fyrir kosningarnar, hafa sjálfstæðissinnar hins vegar tekið forystu í baráttunni í fyrsta sinn, samkvæmt könnunum. Í könnun sem The Sunday Times gerði í lok síðustu viku kemur fram að 51 prósent þeirra sem taka afstöðu eru fylgjandi sjálfstæði en 49 prósent eru á móti. Þar er ekki tekið tillit til óákveðinna en mælingar hafa sýnt að þeir séu hallari undir sjálfstæði frekar en að vera áfram hluti af Bretlandi. Þeir sem eru óákveðnir eða segjast ekki ætla mæta á kjörstað eru nú um átta prósent. Að teknu tilliti til þeirra ætla 47 prósent aðspurðra Skota að segja já við sjálfstæði en 45 prósent nei.
Sjálfstæðissinnar hafa sótt hratt á í könnunum eftir að aðrar sjónvarpskappræður Alex Salmond, fyrsta ráðherra Skotlands og formanns Skoska þjóðarflokksins, og Alistair Darling, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands, fóru fram í lok ágúst. Salmond fer fyrir sjálfstæðissinnum í baráttunni en Darling er opinber talsmaður Nei-sinna. Salmond þótti hafa sigrað kappræðurnar með nokkrum yfirburðum og heillað marga kjósendur með staðfestu sinni og ástríðu. Darling hafði komið honum í nokkur vandræði í fyrstu kappræðum þeirra félaga með því að þráspyrja hann um hvernig gjaldmiðlamálum yrði háttað ef sjálfstæði yrði ofan á, en Salmond og sjálfstæðissinnar vilja halda í breska pundið þrátt fyrir að bresk stjórnvöld séu því andstæð. Salmond þótti klaufalegur í tilsvörun og nær allir skýrendur voru sammála um að Darling hefði sigrað þær kappræður nokkuð örugglega. Töldu margir stjórnmálaskýrendur að slagurinn væri í raun tapaður eftir fyrstu kappræðurnar. Svo reyndist alls ekki vera.
Niðurstöður könnunar The Sunday Times ríma við þær þá stöðu sem einkakannanir Já-sinna hafa verið að sýna að undanförnu. Staðan hefur líka valdið gríðarlegum titringi í breskum stjórnmálum. Viðmælendur Kjarnans í hópi þeirra sem starfa að sjálfstæðisbaráttunni segja að þeir búist við því að Nei-sinnar hlaði stóru fallbyssurnar á lokasprettinum og að allt verði reynt til að mála sem svartasta mynd af sjálfstæðu Skotlandi í fjölmiðlum og opinberri umræðu. Því sé slagnum fjarri því lokið.
„Búið ykkur undir að verða fyrir vonbrigðum"
Kjarninn, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Norræna húsið og Nexus héldu hádegisverðarfund um sjálfstæði Skotlands í október í fyrra. Á meðal framsögumanna á fundinum var Angus Robertson, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins á breska þinginu. Í samtali við Kjarnann þá sagðist Robertson vera mjög bjartsýnn á að Skotar væru búnir að kjósa yfir sig sjálfstæði innan við ári síðar, þrátt að allar skoðannakannanir á þeim tíma sýndu afgerandi hið gagnstæða.
Hann sagði engan hafa trúað því á sínum tíma að Skotar gætu fengið sitt eigið þing. Það hafi síðan gerst. Þá hafi enginn trúað því að Skoski þjóðarflokkurinn gæti komist í ríkisstjórn. Það hafi síðan gerst. Í kjölfarið hafi enginn trúað því að flokkurinn gæri náð hreinum meirihluta á skoska þinginu. Það hafi síðan gerst í síðustu kosningum. „Þeir sem trúa því ekki að Skotland geti orðið sjálfstætt ríki mega fara að búa sig undir að verða fyrir vonbrigðum,“ sagði Robertson að lokum. Svo virðist sem hann gæti mögulega haft nokkuð til síns máls.