Flokkar sem hafa sjálfstæði Katalóníu á stefnuskrá sinni eru með rúman meirihluta þingsæta í héraðinu og unnu mikinn kosningasigur, samkvæmt nýjustu tölum, en héraðskosningar fóru fram í dag. Útgönguspár höfðu gert ráð fyrir þessari niðurstöðu, eins og greint var frá í dag.
Eftir að um 90 prósent atkvæða höfðu verið talin voru þeir flokkar sem voru með sjálfstæði Katalóníu á stefnuskránni, Convergencia og Esquerra Republicana, með 72 sæti af 135 sem tilheyra héraðinu. Forystufólk þeirra hafði lýst því yfir fyrir kosningarnar að það myndi lýsa yfir sjálfstæði Katalóníu ef það næði meirihluta, en slíkt er afar illa séð hjá ríkisstjórn Spánar, og hefur forsætisráðherrann, Mariano Rajoy, lýst því yfir að sjálfstæði Katalóníu geti haft afar neikvæð áhrif fyrir efnahag Spánar.
Búast má við að þessi niðurstaða setji aukinn þunga í umræðuna um sjálfstæði Katalóníu.
Samkvæmt útgönguspám, meðal annars skoðanakönnun sjónvarpstöðvarinnar TV3 þá voru flokkar sem eru með sjálfstæði Katalóníu á stefnuskrá sinni með um 50 prósent atkvæða, og gætu fengið á bilinu 63 til 68 þingsæti af þeim 135 sem héraðinu tilheyra. Aðrar kannanir hafa sýnt sterkari meirihluta, á bilinu 74 til 79 sæti af 135.