Um sjö þúsund manns mættu á Austurvöll í dag til að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sendi bréf þess efnis til sambandsins síðastliðinn fimmtudag. Ákvörðunin var ekki tekin fyrir á Alþingi né borin undir utanríkismálanefnd.
Í yfirlýsingu sem skipuleggjendur fundarins sendu frá sér segir:
"Ríkisstjórn Íslands lætur sér vestrænar lýðræðishefðir í léttu rúmi liggja þegar kemur að málum sem hún er á móti. Ráðherrar hennar víla ekki fyrir sér að svíkja kosningaloforð og þegar þeir eru minntir á eigin orð kemur ekkert af viti á móti, engin rök, ekkert málefnalegt, engin samræða, heldur fullyrðingar um að þeir hafi lýðræðislegan rétt til að gera hvað sem þeim sýnist.
Síðasta útspil ríkisstjórnarinnar endurspeglar gerræðislega stjórnarhætti. Það er á okkar ábyrgð, borgara þessa lands, að svara fullum hálsi og stöðva þessa þróun áður en hún leiðir okkur til stjórnarhátta sem engum hugnast, nema þeim sem sitja á valdastólum.
Ríkisstjórn Íslands hefur lítilsvirt lýðræðið í landinu og ber því tafarlaust að segja af sér. Hingað og ekki lengra!"
Um sjö þúsund manns mættu á mótmælin sem fram fóru á Austurvelli í dag. EPA/ANTON BRINK
Önnur mótmælin í þessari lotu
Þetta voru önnur mótmælin vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Þau fyrri fóru fram á fimmtudagskvöldið, um tveimur klukkutímum eftir að tilkynnt var um ákvörðunina. Þá mættu rúmlega 200 manns og því ljóst að mótmælin sem fóru fram í dag voru mun stærri í sniðum.
Þau Illugi Jökulsson rithöfundur, Jóna Sólveig Elínardóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, Jórunn Frímannsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi og Guðrún Pétursdóttir lífeðlisfræðingur fluttu ávarp á mótmælafundinum, sem stýrt var af Sif Traustadóttur. KK og Hemúlinn sáu síðan um tónlistaratriði.
Mótmælendur voru á öllum aldri. EPA/ANTON BRINK
Mikil mótmæli í fyrra
Mótmælin nú minna um margt á ástandið á Austurvelli fyrir um ári síðan. Nokkur þúsund manns mótmæltu nokkrar helgar í röð í febrúar og mars á síðasta ári í kjölfar þess að Gunnar Bragi lagði fram tillögu um að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Frumvarpið var lagt fram í kjölfar birtingar skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði um viðræðurnar. Samkvæmt henni voru verulega litlar líkur á því að Ísland geti fengið undanþágur frá grunnregluverki ESB. Skömmu síðar kom út skýrsla Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands sem sýndi allt aðra niðurstöðu og sagði að Ísland hefði þegar náð fram ýmis konar undanþágum.
Skipuleggjendur mótmælendanna, og margir þátttakendanna í þeim, töldu að stjórnarflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hefðu lofað því fyrir síðustu kosningar að slíta ekki viðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðargreiðslu um málið.
Að endingu var tillagan svæfð í nefnd. Gunnar Bragi sagði í sjónvarpsviðtali í gær að þingið hefði tekið tillöguna í gíslingu og því hefði hann ekki viljað fara þá leið að leggja slíka fram á ný.
Fjórar ræður voru fluttar á mótmælunum. Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum þeirra sagði: „Ríkisstjórn Íslands hefur lítilsvirt lýðræðið í landinu og ber því tafarlaust að segja af sér. Hingað og ekki lengra!" EPA/ANTON BRINK
Meirihluti landsmanna vill ekki slíta viðræðum
Meirihluti landsmanna vill ekki að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka, samkvæmt nýlegri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin Já Ísland. 35,7 prósent vilja að umsóknin verði dregin til baka en 11,1 prósent sögðust hvorki vera fylgjandi né andvígir.
Samkvæmt könnun Capacent Gallup hafa heldur aldrei fleiri verið hlynntir því að Ísland verði aðili að sambandinu en nú, eða 46,2 prósent. Tæp 54 prósent svarenda voru andvígir aðild.