Suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius ætti að sitja í stofufangelsi í þrjú ár og sinna samfélagsþjónustu, segir starfsmaður fangelsisyfirvalda í Suður-Afríku sem gaf álit fyrir dómi Pretoríu í dag. Á allra næstu dögum verður refsing yfir Pistorius ákveðin en hann myrti unnustu sína á heimili þeirra í febrúar 2013.
Joe Maringa, starfsmaður fangelsisyfirvalda, sagði hlauparann „hafa gott af leiðbeinandi fangavist“ og að þessi refsing mundi gefa honum tækifæri til að endurreisa og laga hegðun sína.“ Maringa lagði svo til að hann mundi fá samfélagsþjónstuverkefni sem fælu í sér að sópa götur fyrir utan söfn í Pretoríu og þannig gæti hann byrjað að æfa og keppa í íþróttum á ný.
Gerrie Nel, ríkissaksóknari í Suður-Afríku sem rekur málið gegn Pistoriusi, var mikið niðri fyrir og lýsti tillögu Maringa sem „sjokkerandi óviðeigandi“ enda væri það engin refsing. Ákæruvaldið krefst hins vegar langrar fangelsisvistar yfir Pistorius. The Guardian greinir frá því að faðir Reevu Steenkamp, unnustu Pistoriusar, hafi grafið andlit sitt í höndum sér og að vinir hennar og kunningjar hafi hrist hausinn á meðan Maringa lýsti tillögu sinni.
http://www.youtube.com/watch?v=GjJRQi7OIWo
Hægt er að fylgjast með dómhaldinu í beinni útsendingu í spilaranum hér.
Upplifir sig algerlega einskis nýtan
Thokozile Masipa, dómari í málinu, hlustaði í dag á málflutning ákærða, ákæruvaldsins, sálfræðingum og fangelsisyfirvöldum. Hún mun í kjölfarið kveða upp úrskurð sinn í málinu.
Lore Hartzenberg, sálfræðingur Pistoriusar, gaf vitnisburð sinn í morgun. Hún hefur sinnt Pistoriusi síðan eftir morðið og lýsti því sálfræðitímum þeirra þar sem hlauparinn hafi grátið, kastað upp, svitnað og gengið ráðvilltur um gólf. Jafnframt segir hún tækifæri hans til að jafna sig eftir atburðinn hafa verið eyðilagt af „illum fjölmiðlum“.
„[Pistorius] á að öllum líkindum ekki eftir að jafna sig af atvikinu ... Herra Pistorius upplifir sjálfan sig algerlega einskis nýtan,“ sagði Hartzenberg. Saksóknari gagnrýndi hins vegar niðurstöður sálfræðingsins og sagði Pistorius að öllum líkindum enn hafa tækifæri til að byggja upp líf sitt og halda áfram með hlaupaferilinn. „Nú erum við fást við niðurbrotinn mann, en hann er enn á lífi.“
Ríkissaksóknarinn á enn eftir að kalla til tvö vitni til að styðja við tillögur sínar um fangelsisvist sem er að hámarki 15 ár. Í september tók Masipa afstöðu til raka saksóknara og sagði ákæruvaldið ekki hafa fært sönnur á að Pistorius hafi deytt Steenkamp af yfirlögðu ráði. Pistorius heldur því fram að hann hafi haldið manneskjuna á baðherberginu vera innbrotsþjóf og þess vegna skotið á baðherbergisdyrnar með skammbyssu sinni.
Fái Pistorius ekki dæmda á sig fangelsisvist er líklegt að það muni vekja óánægju almennings í Suður-Afríku. Enn telja svartir Suður-Afríkubúar að auðugt hvítt fólk fái auðveldari meðferð fyrir dómsstólum, jafnvel þó 20 ár séu liðin frá endalokum aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku.
Í samtali við Reuters sagði Mildred Lekalakala, meðlimur í kvennahreyfingu Afríkuþingsins að þegar öllu væri á botninn hvolft hefði ung kona verið myrt og að „einhver hljóti að vera ábyrgur“. Masipa mun að öllum líkindum taka ákvörðun á allra næstu dögum. Ekki er hægt að áfrýja málinu fyrr en dómhaldinu hefur verið lokið og úrskurður dómara liggur fyrir. Ákæruvaldið getur því enn áfrýjað úrskurði dómarans um að ekki hafi verið um morð að yfirlögðu ráði að ræða.