Fyrirtækið FX Iceland ehf., sem hóf rekstur gjaldeyrisskiptastöðvar í upphafi kórónuveirufaraldursins, hefur óskað eftir því að verða fellt af skrá Seðlabankans yfir aðila sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og hefur Seðlabankinn orðið við þeirri beiðni.
Frá þessu segir í tilkynningu frá Seðlabankanum í dag, en í sumar sektaði fjármálaeftirlit bankans fyrirtækið um 2,7 milljón fyrir margháttuð og alvarleg brot á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Eins og Kjarninn fjallaði um í ágúst var málinu lokið með sátt milli FX Iceland og fjármálaeftirlitsins, en athugun eftirlitsins hafði leitt í ljós víðtæka veikleika sem fólu í sér alvarleg brot gegn grundvallarþáttum í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Fjármálaeftirlitið hefur heimild til þess að leggja allt að 500 milljón króna stjórnvaldssekt á fyrirtæki vegna brota á ákvæðum laganna, en horfði auk annars til þess við sektarákvörðunina að umfang starfseminnar væri lítið, að fyrirtækið hefði nýlega hlotið skráningu sem gjaldeyrisskiptastöð og einnig sýnt samstarfsvilja við meðferð málsins, með því að gera að fyrra bragði áætlun um úrbætur og upplýsa og framgang þeirra.
Eigendur FX Iceland, sem fékk starfsleyfi um mitt ár 2019 og opnaði gjaldeyrisskiptastöð á Hafnartorgi í Reykjavík snemma árs 2020, eru hjónin Bergsveinn Sampsted, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Valitor og Hrönn Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Sýnar.
Fyrirtækið var með rúmar 28 milljónir króna í rekstrartekjur í fyrra og tapaði rúmum 1,2 milljónum króna. Árið áður hafði tapið einnig verið rúm milljón.
Annmarkar á flestum þáttum sem skoðaðir voru
Fjármálaeftirlitið réðst í vettvangsrannsókn hjá fyrirtækinu í nóvember 2020 og kom sú vettvangsrannsókn illa út, samkvæmt því sem fram kemur í samkomulagi um sáttinna milli fyrirtækisins og fjármálaeftirlitsins sem birt var í sumar.
„Í ljós komu annmarkar sem snéru að aðgerðum málsaðila gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Voru annmarkar taldir vera á flestum þáttum sem teknir voru til skoðunar, m.a. áhættumati málsaðila á rekstri sínum og viðskiptum, framkvæmd áreiðanleikakannana, reglubundnu eftirliti, verkferlum, tilkynningum til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu (SFL) og varðveislu gagna,“ sagði í samkomulaginu.
Einnig kom fram í skjalinu að fyrirtækið hefði stundað viðskipti við tvo aðila eftir að Skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, sem sinnir eftirliti með peningaþvætti, sendi tilkynningu um grunsamleg viðskipti vegna þeirra.
Þá leiddu upplýsingar um 20 stærstu viðskiptamenn fyrirtækisins í ljós að í öllum tilvikum var um viðvarandi viðskiptasamband að ræða þar sem sömu einstaklingarnir komu ítrekað með háar fjárhæðir án þess að málsaðili óskaði frekari upplýsinga eða staðfestinga þeim tengdum.
Þá kom einnig fram í vettvangsrannsókninni að FX Iceland óskaði ekki eftir því að viðskiptamenn sem stunduðu viðskipti að jafnvirði 150 evrur eða minna gerðu grein fyrir sér með nafni eða persónuskilríkjum. Í kerfum fyrirtækisins voru slíkir viðskiptamenn merktir sem „walk-in” og frekari upplýsingar um þá ekki skráðar.