Rannsókn á meintum skattalagabrotum Samherjasamstæðunnar er nú í gangi hjá embætti héraðssaksóknara, samkvæmt heimildum Kjarnans. Embætti skattrannsóknarstjóra, sem var lagt niður í fyrri mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skattsins, hefur frá því síðla árs 2019 verið að rannsaka ýmsa þætti í starfsemi samstæðunnar vegna gruns um stórfelld skattsvik.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að tilfærsla stærri skattrannsókna hafi setið föst, og ekki komist yfir til héraðssaksóknara frá því að lög um niðurlagningu skattrannsóknarstjóra tóku gildi. Ástæðan var sú að innan embættanna var ótti við að rannsókn mála gæti skemmst á tæknilegum forsendum ef formlegar verklagsreglur lægju ekki fyrir.
Í kjölfar umfjöllunar Kjarnans um málið voru formlegar verklagsreglur settar og við það losnaði sá tappi sem myndast hafði milli embættanna og mál sem höfðu verið á bið mánuðum saman gátu færst í áframhaldandi rannsókn hjá héraðssaksóknara. Á meðal þeirra er skattahluti Samherjamálsins sem færðist yfir í september.
Eiga að greiða tekjuskatt hérlendis
Heimildir Kjarnans herma að meðal þess sem þar hafi verið til skoðunar sé hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga. Þar er um að ræða möguleg brot á svokallaðri CFC löggjöf sem verið hefur í gildi hérlendis frá árinu 2010.
Hagnaður af Namibíuútgerð Samherja var fluttur til félags á eyjunni Máritíus og þaðan til lágskattríkisins Kýpur, þar sem Samherji átti fjölmörg félög en var með nánast enga eiginlega starfsemi. Þaðan fóru þeir síðan inn á bankareikninga samstæðunnar, samkvæmt því sem fram kom í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og fleiri miðla sem birt var í nóvember 2019.
Rannsókn á mútubrotum komin vel á veg
Til viðbótar við rannsóknina á skattamálum Samherja fer fram umfangsmikil rannsókn á meintum stórfelldum efnahagsbrotum samstæðunnar, meðal annars mútubrot og peningaþvætti, í tengslum við starfsemi hennar í Namibíu. Gögn málsins benda til að Samherjasamstæðan hafi greitt að minnsta kosti 1,7 milljarð króna í mútur fyrir aðgang að kvóta í Namibíu.
Átta manns hið minnsta hafa fengið réttarstöðu sakbornings við yfirheyrslur hjá embætti héraðssaksóknara frá því að fyrsta lota þeirra hófst í fyrrasumar.
Á meðal þeirra er Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn aðaleigandi Samherja, sem neitaði að svara spurningum héraðssaksóknara þegar hann var yfirheyrður í annað sinn vegna Namibíumálsins í seint í sumar. Í bókun sem lögmaður hans lagði fram fyrir hönd Þorsteins Más þegar hann var kallaður til yfirheyrslu sagði að ástæða þessa væri sú að forstjórinn hefði fengið takmarkaðar upplýsingar um sakarefnið.
Stundin greindi frá því í september að Ingólfur Pétursson, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu, hafi líka fengið slíka stöðu við yfirheyrslur í sumar.
Hinir sex sem voru þá kallaðir inn til yfirheyrslu og fengu réttarstöðu sakbornings við hana voru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, og uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson.