Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, ætlar að ganga til samninga við manninn sem býr yfir gögnum um eignir Íslendinga í skattaskjólum, en hann vill fá 150 milljónir fyrir þau. Þetta kom fram í fréttum Bylgjunnar í hádeginu í dag.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að gengið verði til samninga við seljanda gagna um Íslendinga í skattaskjólum á grundvelli yfirlýsingar fjármálaráðherra frá því í gær. Hún segir engu hægt að lofa um árangur af skattheimtu að svo stöddu. Hún segir að sér hafi verið brugðið við yfirlýsingar fjármálaráðherra um seinagang embættisins.
Bryndís sagði í viðtali við Bylgjuna að nú yrði unnið með málið áfram, og að ekki væri útilokað að það mætti kaupa gögnin fyrir lægri fjárhæð en efnahags- og fjármálaráðuneytið hefði tilkynnt um að huldumaðurinn vildi fá fyrir gögnin. Samningaviðræður ættu eftir að fara fram, og að það hefði verið að mörgu leyti neikvætt fyrir þær, að gefa upphæðina upp áður en þær færu fram.
Í tilkynningu efnhags- og fjármálaráðuneytisins segir að embætti skattrannsóknarstjóra hafi með bréfi, sem var sent til ráðuneytisins 27. janúar síðastliðinn, upplýst að athugun þess hefði leitt í ljós að ekki væri mögulegt að ganga til samninga um kaup á gögnunum þannig að greiðslur yrðu háðar árangri af nýtingu þeirra. „Seljandi gagnanna sé á hinn bóginn reiðubúinn til að láta öll gögnin af hendi fyrir 150 milljónir króna, ellegar 2.500 evrur fyrir hvert mál, en þau eru alls 416 talsins. Jafnframt segir í bréfi embættis skattrannsóknarstjóra að skýra þurfi nánar atriði er lúta að hæfi seljanda“.
Þá upplýsir ráðuneytið að það hafi, með bréfi, beint því til skattrannsóknarstjóra að embættið gangist fyrir athugun á því hvort fréttaflutningur af viðskiptaháttum svissneska útibús breska bankans HSBC, og eftir atvikum annarra banka, gefi tilefni til rannsókna að hálfu embættisins.