Hrannar Pétursson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, svaraði sjö spurningum í Kjarnanum.
Hvað gleður þig mest þessa dagana? Að sjá fyrir endann á framkvæmdum sem hafa staðið yfir á baðherbergi heimilisins. Það er ekki alveg tekið út með sældinni fyrir stóra fjölskyldu að missa baðherbergið, en á hinn bóginn hefur verið frábært að kynnast morgunstemningunni í Vesturbæjarlauginni þar sem við höfum baðað mannskapinn!
Hvert er þitt helsta áhugamál? Ég sýktist af fluguveiðibakteríunni fyrir allmörgum árum og hún ágerist með tímanum. Áður fyrr hristi ég stundum hausinn yfir ólíkum dellum fólks en með eigin veiðidellu hafa þeir fordómar horfið með öllu.
Hvað bók lastu síðast? Ólæsinginn sem kunni að reikna er síðasta bókin sem ég las fyrir sjálfan mig. Annars þarf ég að afgreiða tvær bækur á hverju kvöldi með 4 ára dóttur minni sem neitar að fara í rúmið fyrr en kvótinn er búinn. Í gærkvöldi varð Valtýr prumpuhundur fyrir valinu ásamt Palla sem var einn í heiminum. Nú liggur The 4 Disciplines of Execution á náttborðinu.
Hvert er þitt uppáhaldslag? Red með Taylor Swift er í miklu uppáhaldi þessa dagana, Red Red Wine með UB40 er klassíker og svo hef ég miklar mætur á Red Hot Chili Peppers!
Til hvaða ráðherra berðu mest traust? Þeirra sem láta verkin tala.
Ef þú ættir að fara til útlanda á morgun og mættir velja land, hvert myndir þú vilja fara? Ítalía yrði alltaf fyrir valinu. Held ég hljóti að hafa verið Ítali í fyrra lífi.
Hvaða fer mest í taugarnar á þér? Þegar mýfluga verður að úlfalda!