Lilja Alfreðsdóttir, hefur ákveðið að skipa starfshóp sem er ætlað að að útfæra lagabreytingar sem tryggi að ástandsskýrslur fylgi söluyfirlitum allra fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar. Hópurinn á að hafa þingsályktunartillögu sem átta stjórnarandstöðuþingmenn – sjö frá Pírötum og einn úr Flokki fólksins – lögðu fram á síðasta kjörtímabili og fengu samþykkta með atkvæðum þingmanna úr öllum stjórnmálaflokkum sem áttu fulltrúa á Alþingi utan Miðflokksins, sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Samkvæmt tillögunni eiga ástandsskýrslur að innihalda greinargóðar upplýsingar um ástand fasteignar og vera unnar af óháðu matsfólki með víðtæka þekkingu á mannvirkjagerð. „Til þess að stuðla enn frekar að áreiðanleika, trausti og sátt í fasteignaviðskiptum verður framkvæmd matsins og innihalds ástandsskýrslnanna samræmt,“ sagði í tilkynningu sem Píratar sendu frá sér þegar hún var samþykkt en Björn Leví Gunnarsson, þingmaður flokksins var fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Gæti hægt á markaðnum
Verði það bundið í lög að seljendur íbúðarhúsnæðis þurfi að láta framkvæma ástandsskýrslu áður en íbúð er seld mun það fela í sér mikla breytingu á íslenskum fasteignamarkaði. Í dag er valkvætt að kaupa slíka ástandsskoðun af einkaaðilum en það er ekki algengt að það sé gert og þá nær alltaf á kostnað væntanlegra kaupenda. Tilgangurinn er að aukna réttarvernd íbúðarkaupenda en lagabreytingin mun einnig óhjákvæmilega hafa áhrif á stöðu, ábyrgð og verkefni fasteignasala við kynningu og sölu fasteigna.
Auk framangreindra atriða mun starfshópnum verða falið að taka til skoðunar aðrar tillögur á sviði fasteignakaupa sem varða hlutverk fasteignasala og fyrirkomulag tilboðsgerðar og samþykktar, auk möguleika á fyrirkomulagi um úrlausn ágreinings kaupenda og seljenda utan dómstóla.
Hliðaráhrif af þessari lagabreytingu, verði hún að veruleika, gætu líka verið þau að hægja myndi á fasteignaviðskiptum, en gríðarleg hækkun á íbúðaverði hefur verið megindrifkraftur þess að verðbólga hefur hækkað skarpt hérlendis undanfarna mánuði og mælist nú 8,8 prósent. Helstu greiningaraðilar búast við að verðbólgan fari í tveggja stafa tölu í lok sumars.
Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum helstu haghafa, þ.e. Félagi fasteignasala, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins og Húseigendafélaginu. Búið er að óska eftir tilnefningum í starfshópinn og verður hann í framhaldi af því skipaður og tekur til starfa.
Miðað er við að starfshópurinn skili ráðherra skýrslu á fyrri hluta árs 2023.