Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp sem vinni samantekt um möguleika á nýtingu vinds á hafi í lögsögu Íslands. Samantektina á að nýta til undirbúnings stefnumörkunar stjórnvalda um nýtingu vinds á hafi sem liður í gerð uppfærðrar orkuskiptaáætlunar.
Óskað verður tilnefninga frá ÍSOR, Orkustofnun, Veðurstofunni og Náttúrufræðistofnun og formaður skipaður án tilnefningar. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn leiti m.a. upplýsinga hjá framangreindum aðilum auk Hafrannsóknarstofnun, Samorku og Landsvirkjun ásamt upplýsingum erlendis frá.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að marka skuli stefnu um vindorkuver á hafi. Áður en sú stefnumótun hefst þarf hins vegar að liggja fyrir heildrænt yfirlit yfir möguleika til framleiðslu raforku frá vindorkuverum á hafi.
Í svonefndri Grænbók, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson lét vinna í vetur, eru dregnar upp sviðsmyndir um framtíðar orkuþörf hér á landi. Flestar gera þær ráð fyrir aukinni orkuþörf, sumar verulega aukinni þörf á komandi áratugum. Leita þarf því allra leiða varðandi nýja orkuskosti, segir í samantekt umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem Kjarninn fékk um vindorkuáform á hafi úti, mál sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í gær.
Mikilvægt sé að hafa sem besta yfirsýn yfir þróun vindorkunýtingar á hafi og grunnupplýsingar um hagkvæmni orkuframleiðslunnar samanborið við aðra orkukosti. Skoða þarf að mati ráðuneytisins vandlega hvort og þá hvernig vindorka á hafi verði liður í þeirri orkuskiptaáætlun sem sett verður fram á næstu misserum.
Skipun fyrrgreinds starfshóps er liður í því verkefni. Ráðuneytið segir í svari sínu til Kjarnans að upplýsingar liggi víða, m.a. hjá norrænum orkurannsóknum og einnig sé hægt að líta til skýrslu sem lögð var fram á Alþingi af ráðherra orkumála í nóvember 2018 og tók m.a. til vindorku á landi og sjávarfallaorku.
Starfshópnum er ætlað að taka saman upplýsingar um eftirfarandi atriði:
- Fýsileika orkuvinnslu á hafi við Ísland.
- Leggja þarf gróft mat á mögulega afl- og orkuframleiðslugetu.
- Taka þarf saman upplýsingar um hagkvæmni orkuframleiðslu á hafi og mögulegrar þróunar.
- Hvar sé raunhæft að hafa botnfastar vindmyllur.
- Hvar sé mögulegt að hafa fljótandi vindmyllur.
- Hvar séu hagstæð vindskilyrði.
- Hvar séu skilyrði óhagstæð vegna fiskimiða og siglingaleiða.
- Hvar séu mögulegar landtengingar frá vindmyllum við Ísland.
- Hvar séu skilyrði óhagstæð vegna farfugla og náttúru.
- Hvort hætta stafi af hafís eða öðrum náttúrufyrirbrigðum.
- Hvað þurfi að hafa sérstaklega í huga varðandi úrbætur á regluverki til að styðja við þróun nýtingar vindorku á hafi.