Skipulagsstofnun telur að afnám vetrareinangrunar á Seyðisfirði með áformuðum Fjarðarheiðargöngum komi til með að hafa verulega jákvæð áhrif á samfélagið á Seyðisfirði. Um það deila sjálfsagt fæstir enda um að ræða helsta tilgang þessarar tæplega 50 milljarða króna framkvæmdar. En það eru hins vegar skiptar skoðanir um veglagninguna að jarðgöngunum sem yrðu meðal þeirra lengstu í heimi, eða 13,3 kílómetrar. Vegagerðin hefur sett fram þrjá valkosti Héraðsmegin við göngin og svonefnda Suðurleið sem sinn aðalvalkost. Skipulagsstofnun dregur hins vegar í nýútgefnu áliti sínu á umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar fram kosti svokallaðrar Miðleiðar.
Að mati Skipulagsstofnunar getur aðalvalkostur Vegagerðarinnar á Héraði haft verulega neikvæð áhrif á gróðurfar, einkum vegna umfangs skerðingar á votlendi, birki og æðplöntum sem njóta verndar. Þá ríki óvissa um áhrif allra veglína á Héraði á friðaðar fléttutegundir sem mikilvægt sé að eyða með kortlagningu. Skipulagsstofnun telur eðlilegt að höfð verði hliðsjón af slíkri úttekt við endanlegt val á veglínu.
Jafnframt telur Skipulagsstofnun mikilvægt að val á milli veglína taki mið af náttúruverndarlögum, auglýsingu um friðun æðplantna, mosa og fléttna og markmiðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, en meðal þeirra er umhverfisvernd. Bendir stofnunin á að samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga ber að forðast að raska votlendi og birki sem nýtur sérstakrar verndar nema brýna nauðsyn beri til.
Að mati Skipulagsstofnunar er ljóst að Miðleiðin hefði minnst umhverfisáhrif af þeim valkostum sem voru til skoðunar á Héraði í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar. Miðleiðin sé jafnframt sú leið sem hefur lægstu slysatíðnina, fæstu aksturskílómetrana og fæstu akstursklukkustundirnar. Sú leið gerir ráð fyrir að nýta núverandi veg um Fagradalsbraut í gegnum þéttbýlið á Egilsstöðum en Fagradalsbraut er farin að hafa neikvæð samfélagsleg áhrif á byggðina sitt hvorum megin vegar. Bendir Skipulagsstofnun hins vegar á í því samhengi á að ákveðið svigrúm sé til að ráðast í aðgerðir sem bæta umferðaröryggi við Fagradalsbraut, s.s. lækka hraða eða lagfæra hönnun, án þess að hafa neikvæð áhrif á greiðfærni samanborið við aðalvalkost Vegagerðarinnar, þ.e. Suðurleið.
Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að veglagning samkvæmt Suðurleið virðist draga takmarkað úr umferð minni ökutækja og óvissa er um að hvaða marki þungaflutningabílum fækkar. Í ljósi þess telur stofnunin mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Fagradalsbraut, jafnvel þó svo að Hringvegurinn verði fluttur út fyrir þéttbýlið líkt og bæði Suður- og Norðurleið gera ráð fyrir.
Áhrif vegagerðar á náttúrufar verða minni á Seyðisfirði. Aðalvalkostur Vegagerðarinnar, þ.e. ný veglína, mun þó hafa í för með sér nokkuð umfangsmikið rask á landi sem að stórum hluta samanstendur af vistgerðum með hátt eða mjög hátt verndargildi. Nýja veglínan kemur til með að liggja um golfvöll Seyðfirðinga. Þar sem færa þarf golfvöllinn má gera ráð fyrir verulega neikvæðum áhrifum á golfiðkun tímabundið. Skipulagsstofnun telur að valkostur sem felst í lagfæringu á núverandi vegi um Seyðisfjörð hefði minni umhverfisáhrif en lagning nýrrar veglínu.
Á Seyðisfirði eru helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar tengd vatnsvernd. Á framkvæmdatíma er ákveðin hætta á að mengunarefni berist frá framkvæmdasvæðinu í Fjarðará og spilli vatnsbóli Seyðisfjarðar, óháð því hvaða valkostur verður fyrir valinu. Afar brýnt er að tryggja Seyðfirðingum greiðan aðgang að hreinu neysluvatni. Skipulagsstofnun telur að færsla inntakslóns vatnsveitu upp fyrir gangamunnann myndi draga mjög úr hættu á áhrifum á vatnsbólið.
Skipulagsstofnun telur að áður en kemur að útgáfu framkvæmdaleyfis þurfi að kortleggja fundarstaði friðaðra fléttutegunda á áhrifasvæði allra framlagðra valkosta um Egilsstaðaskóg. Einnig þurfi að leggja fram mótvægisaðgerðir. Jafnframt þurfi að kortleggja rask á votlendi og skóglendi á ókönnuðum hluta Suðurleiðar „svo réttar upplýsingar liggi fyrir um heildarflatarmál votlendis og skóglendis sem þarf að endurheimta“.
Vegagerðin áformar að gera 13,3 kílómetra löng jarðgöng milli Héraðs og Seyðisfjarðar ásamt tilheyrandi tengingum við vegakerfið. Framkvæmdinni er ætlað að bæta vetrarsamgöngur til og frá Seyðisfirði, en í dag fer öll umferðin um Fjarðarheiði í 620 metra hæð. Göngin verða í hópi lengstu vegganga í heimi og er stofnkostnaður áætlaður 44-47 milljarðar króna. Þau verða tvíbreið með 3,5 m breiðum akreinum og 70 km/klst hámarkshraða. Vegagerð utan ganga verður 6,9 – 13,6 km, háð leiðarvali. Aðalvalkostur Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir 6,9 km löngum vegi Héraðsmegin um svokallaða Suðurleið og 3,5 km löngum vegi Seyðisfjarðarmegin um nýja veglínu. Framkvæmdartími er áætlaður 7 ár. Byrjað verður á jarðgöngunum og síðan farið í vegagerð utan ganga.
En hverjir eru valkostirnir sem Vegagerðin lagði mat á í skýrslu sinni?
- Norðurleið: Hringvegur færður norður fyrir Egilsstaði. Samtals þarf 10,1 km langa vegagerð á Héraði og tvær nýjar brýr á Eyvindará. Valkostur nær frá Hringvegi við Melshorn að jarðgöngum. Hringvegur lengist um 1,1 km.
- Suðurleið (aðalvalkostur Vegagerðarinnar): Veglínan fylgir Miðleið en í stað þess að fara í gegnum þéttbýlið verður Hringvegur færður suður fyrir Egilsstaði. Samtals þarf 6,9 km langa vegagerð á Héraði og nýja brú á Eyvindará. Valkostur nær frá Skriðdals- og Breiðdalsvegi, við Egilsstaði, að jarðgöngum. Hringvegur lengist um 2,5 km.
- Miðleið um Háls og Fagradalsbraut: Nýr Hringvegur verður færður til á 3,1 km kafla en fer áfram um þéttbýlið. Samtals þarf 4,1 km langa vegagerð á Héraði og nýja brú á Eyvindará. Valkostur nær frá Hringvegi við Egilsstaðavegamót að jarðgöngum. Hringvegur lengist um 0,1 km.
Í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar kom fram að athugunarsvæði allra leiða Héraðsmegin einkennist af vel grónu landi, gróskumiklum birkiskógi og birkikjarri, nokkuð stórum votlendissvæðum, túnum, skógrækt og öðru manngerðu landi. Allir valkostir Héraðsmegin og athafna- og haugsetningasvæði koma til með að raska birkiskógi sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.
Þéttur og gamall birkiskógur er einkennandi fyrir stóran hluta þess svæðis sem þessar leiðir munu liggja um auk þess sem stór opin votlend svæði, með fjölbreyttum votlendisvistgerðum eru innan veglínu Norður- og Suðurleiðar. Þá mun þurfa að byggja umfangsmiklar brýr yfir Eyvindará í tilfelli Norðurleiðar og Mið- og Suðurleiðar sem breytir ásýnd árinnar staðbundið.
Leiðirnar taka því til svæðis sem er viðkvæmt fyrir breytingum og geymir vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Rask vegna valkosta á þessi vistkerfi koma helst fram þar sem Hringvegur er færður um Hálsbrekku, þ.e. Miðleið og Suðurleið, og þar sem Suðurleið og Norðurleið liggja fram hjá þéttbýlinu á Egilsstöðum. Blæösp var eina tegundin á válista sem fannst á athugunarsvæðinu, en hún vex innan athugunarsvæðis Suðurleiðar. 15 sjaldgæfar fléttutegundir, þar af fimm á válista, hafa verið skráðar á áhrifasvæði veglína og í næsta nágrenni. Vegna þeirra hefur verið lagt til að Egilsstaðaskógur og nágrenni verði friðlýst.
Fram kemur í umhverfismatsskýrslunni að fæstir hektarar gróinna svæða raskast ef Miðleið yrði fyrir valinu, enda er minnst þörf á nýrri vegagerð fyrir þann valkost. Þar er meiri hluti raskaðs svæðis birkiskógur. Á Miðleið er ennfremur minnst af votlendi og engin sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum vegna stærðar sinnar.
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu hefur Suðurleið í för með sér meira rask á landi en Miðleið. Á þeirri leið yrði raskað mestu umfangi birkiskóga og votlendis.
Suðurleið færi um 100 ára gamlan birkiskóg
Beint rask á landi verður minnst á Miðleið (41 hektarar), þá Suðurleið (50 ha) en mest á Norðurleið (57 ha). Miðleið raskar einnig minna af vistgerðum með hátt eða mjög hátt verndargildi (21 ha) en Suðurleið (28 ha) og Norðurleið (27 ha).
Allar veglínurnar skera í sundur birkiskóg og hafa í för með sér umtalsvert óafturkræft rask á birki, eða frá 17 ha (Miðleið) til 21 ha (Suðurleið). Einkum er um að ræða rask á 30-60 ára gömlum birkiskógi, en þar sem Suðurleið beygir af Miðleið þverar hún 60-100 ára gamlan birkiskóg. Í þessum eldri hluta Egilsstaðaskógar er birkið hærra (3-5 metrar) en annars staðar staðar í skóginum.
Í umsögn Skógræktarinnar var bent á að búið er að staðfesta Egilsstaðaskóg sem gamlan, stóran samfelldan skóg sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga auk þess sem skógurinn þykir merkilegur fyrir þær sakir að vera einn fárra náttúrulegra vaxtarstaða blæaspar á Íslandi. Leggur Skógræktin ríka áherslu á að forðast beri að raska vistfræðilega mikilvægum gömlum birkiskógum.
Mismikil áhrif á vistkerfi
Samkvæmt náttúruverndarlögum ber að forðast að raska vistkerfum sem njóta verndar samkvæmt 61. gr. laganna nema brýna nauðsyn beri til. Fram kemur í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar að óhjákvæmilegt er að raska þessum vistkerfum til að tryggja bætt umferðaröryggi og aukna greiðfærni. „Í þessu sambandi undirstrikar Skipulagsstofnun að þær þrjár veglínur sem lagðar eru fram í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar hafa mismikil áhrif á vistkerfi sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga,“ segir í áliti stofnunarinnar. „Að mati Skipulagsstofnunar hefur Suðurleið, núverandi aðalvalkostur Vegagerðarinnar, mest áhrif á bæði verndað birkiskóglendi og verndað votlendi.“
Í ljósi umfangs skerðingar á vernduðum vistkerfum og æðplöntum telur Skipulagsstofnun að Suðurleið geti haft verulega neikvæð áhrif á gróður en Miðleið og Norðurleið talsvert neikvæð.
Efast um niðurstöðu varðandi samfélagsáhrif
Á Héraði er gert ráð fyrir að Miðleið nýti núverandi veg um Fagradalsbraut í gegnum þéttbýlið á Egilsstöðum í óbreyttri mynd. Skipulagsstofnun gerir í áliti sínu athugasemd við þá ályktun Vegagerðarinnar að Miðleið sé líkleg til að hafa nokkuð til talsvert neikvæð áhrif á samfélag, „enda vandséð hvernig komast megi að þeirri niðurstöðu“. Stofnunin hefur jafnframt ákveðnar efasemdir um þá niðurstöðu Vegagerðarinnar að ekki sé hægt að útfæra Miðleið þannig að hún hafi jákvæð áhrif á samfélag og samræmist um leið markmiðum framkvæmdarinnar. Skipulagsstofnun telur að Miðleið með Fagradalsbraut í óbreyttri mynd hefði lítil sem engin áhrif á samfélag. „Það þýðir að Miðleið gæti hæglega haft jákvæð áhrif á samfélag ef gripið yrði til aðgerða sem bæta sambúð vegar og byggðar,“ segir í álitinu og ennfremur: „Miðleið hefur m.a. lægstu slysatíðnina og mestu þjóðhagslegu arðsemina. Sú staðreynd að Miðleiðin hefur bæði fæstu aksturskílómetrana og fæstu akstursklukkustundirnar hlýtur að þýða að ákveðið svigrúm sé til staðar til að ráðast í aðgerðir sem bæta umferðaröryggi við Fagradalsbraut, s.s. lækka hraða eða lagfæra hönnun, án þess að hafa neikvæð áhrif á greiðfærni samanborið við Suðurleið.“
Umferðargreiningar benda til að stór hluti umferðar um Fagradalsbraut sé innanbæjarumferð eða eigi erindi á Egilsstaði. Þannig gerir Vegagerðin t.d. ráð fyrir að umferð um Fagradalsbraut minnki einungis um 600 bíla með Suðurleið, þ.e. fari úr 4.100 bílum í 3.500 bíla. „Jafnvel þó að Suðurleiðin væri skiltuð þannig að fólk leiðist hana sjálfkrafa þá er styttra að keyra Fagradalsbraut,“ bendir Skipulagsstofnun á. „Staðkunnugir munu væntanlega fljótt átta sig á því og halda áfram að nota gömlu leiðina nema ráðist verði í gagngerar endurbætur á Fagradalsbraut og hún t.d. þrengd og settar hraðahindranir til að gera ökutækjum erfitt um vik að nota hana sem styttri leið gegnum bæinn.“
Samkvæmt framlögðum gögnum telur Skipulagsstofnun ljóst að óvissa er um að hvaða marki veglagning samkvæmt Suðurleið komi til með að draga úr umferð þungaflutningabíla um Fagradalsbraut og „óraunhæft“ að gera ráð fyrir því að Suðurleið muni fjarlægja alla þungaflutningabíla af Fagradalsbraut. Telur stofnunin mikilvægt að ráðist verði í aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Fagradalsbraut, „jafnvel þó svo að Hringvegurinn verði fluttur út fyrir þéttbýlið“.