The Voice Ísland, flaggskipsþáttur SkjásEins og Símans, sigraði í fyrstu lotu bardagans milli íslensku sjónvarpsstöðvanna um áhorfendur á föstudagskvöldum í vetur. Þátturinn var frumsýndur föstudaginn 2. október síðastliðinn og var langvinsælasta efnið sem SkjárEinn sýndi í vikunni 28. september til 4. október. Alls var meðaláhorf á þáttinn hjá Íslendingum á aldrinum 12 til 80 ára 20,1 prósent og uppsafnað áhorf 28,7 prósent, samkvæmt könnun Gallup á sjónvarpsáhorfi.
Á sama tíma og SkjárEinn sýndi fyrsta þáttinn í The Voice Ísland frumsýndi RÚV nýjan þátt sem ber heitið: Vikan með Gísla Marteini . Í niðurstöðum Gallup eru einungis sýndir þeir tíu dagskrárliðið hverrar sjónvarpsstöðvar sem fá mest áhorf þá viku sem verið er að mæla. Þáttur Gísla Marteins komst ekki inn á þann topp tíu lista fyrstu vikuna sem hann var í loftinu, sem þýðir að meðaláhorf á hann var að minnsta kosti minna en á breska þáttinn Poldark, sem var með 18,7 prósent meðaláhorf og 26,8 prósent uppsafnað áhorf. Meðaláhorf á Útsvar, sem hefst 40 mínútum eftir að The Voice Ísland hefst, var 21,5 prósent og uppsafnað áhorf á þáttinn var 30,9 prósent. Áhorf á Útsvar var því meira en á The Voice Ísland.
Sama föstudagskvöldið og The Voice Ísland og þáttur Gísla Marteins hófu göngu sína snéri spjallþáttur Loga Bergmanns Eiðssonar aftur á Stöð 2, þar sem hann hefur átt fast sæti í dagskránni árum saman. Meðaláhorf á þátt Loga var 11,8 prósent og uppsafnað áhorf var 19,1 prósent. Hann var umtalsvert frá því að ná The Voice Ísland. Vert er að taka fram að þáttur Loga er í læstri dagskrá á meðan að hinir tveir keppinautarnir um hylli sjónvarpsáhorfenda á föstudagskvöldum eru báðir í opinni dagskrá.
Áhorf á SkjáEinn tekur kipp eftir opnun dagskrár
Miklar breytingar hafa orðið á sjónvarpsmarkaðinum að undanförnu í kjölfar þess að Samkeppniseftirlitið lyfti hömlum af samstarfi SkjásEins og eiganda hans, Símans. Þann 1. október síðastliðinn var SkjáEinum breytt í gagnvirka efnisveitu fyrir áskrifendur stöðvarinnar. Þeir geta nú horft á efni hennar hvenær sem þeir vilja í gegnum sjónvarp Símans. Auk þess hefur miklum fjármunum verið eytt til að bæta dagskrá stöðvarinnar fyrir veturinn, meðal annars með nýjum samningi við Fox um að fá þaðan þætti til sýningar og með framleiðslu The Voice Ísland.
Samtímis var línuleg dagskrá SkjásEins opnuð á ný. Hún hafði verið í læstri dagskrá fyrir áskrifendur frá árinu 2009. Þessar breytingar hefur kúvent áhorfi á SkjáEinn. Í vikunni áður en dagskráin var opnum var gamanþátturinn Odd Mom Out vinsælasta efnið á SkjáEinum. Alls var meðaláhorf á þáttinn 3,8 prósent og uppsafnaðáhorf 4,8 prósent. Það er minna en áhorfið á þann þátt sem var í tíunda sæti á lista yfir mest áhorfðu þætti SkjásEins í fyrstu vikunni eftir að opnað var aftur fyrir dagskránna. Sá þáttur, The Muppets, var með 4,8 prósent meðaláhorf og 5,4 prósent uppsafnað áhorf.
The Voice Ísland var hinsvegar langvinsælasta efni stöðvarinnar í síðustu viku. Rúmlega helmingi fleiri horfðu á þann þátt en þann sem var í öðru sæti yfir vinsælasta efnið á SkjáEinum.