Hagnaður Landsvirkjunar nam 78,4 milljónum Bandaríkjadala eða rúmlega tíu milljörðum íslenskra króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014 sem var birtur í dag. Þetta er töluverður viðsnúningur í rekstrinum því árið 2013 varð 38,5 milljóna dala tap á rekstrinum, eða sem nemur fimm milljörðum króna.
Rekstrartekjur Landsvirkjunar hækkuðu um 15,4 milljónir dala á milli ára, í 438,3 milljónir dala eða 57 milljarða króna. Rekstrarkostnaður, án afskrifta og virðisrýrnunar, jókst milli ára en hann var 93,8 milljónir dala árið 2013 en 106,1 milljónir dala í fyrra.
Eignir Landsvirkjunar námu 4.270 milljónum dala í árslok, og handbært fé frá rekstri var 207 milljónir. Nettó skuldir Landsvirkjunar lækkuðu um 238,7 milljónir, eða 31 milljarð króna, milli ára. Skuldir samstæðunnar námu í lok 2014 2.190 milljónum dala, eða 284,8 milljörðum króna.
Frá árslokum 2009 hafa skuldir Landsvirkjunar lækkað um rúmlega 80 milljarða króna. „Með aukinni fjármunamyndun vegna meiri orkusölu, hærra verði á raforku og lægri skuldsetningu munu tækifæri til arðgreiðslna aukast verulega á næstu árum,“ er haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra í fréttatilkynningu með ársreikningnum.
Hann segir jafnframt að reksturinn hafi gengið vel á síðasta ári þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi, sem hafi einkum vegna lágs álverðs og takmörkunar á afhendingu raforku vegna slakrar vatnsstöðu.