Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir erfitt að draga heildstæða ályktun af niðurstöðu kosninganna, jafnt fyrir Vinstri græn sem aðra flokka. Ýmis tíðindi sé að finna í niðurstöðunum en erfitt að fá heildarsýn.
Hún hefði viljað uppskera betur á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er fjölgun frá síðustu kosningunum en auðvitað verður maður að setja það í samhengi við að það voru ekkert afskaplega margir fulltrúar fyrir.“
Þetta er meðal þess sem fram kom á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, þar sem Katrín ræddi niðurstöður sveitarstjórnakosninganna ásamt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar.
Katrín segist lesa niðurstöðurnar þannig að Vinstri grænum hafi ekki tekist að byggja upp öflugt starf á sveitarstjórnarstiginu hér á höfuðborgarsvæðinu. „Það er alveg á hreinu. Augljóslega er þetta eitthvað sem við verðum að taka til okkar.“ Í umræðum í Silfrinu á RÚV um niðurstöðu kosninganna sagði Katrín að flokkurinn þurfi að velta fyrir sér hvort flokkurinn eigi erindi í borgarstjórn eftir niðurstöðu kosninganna. Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, heldur sínu sæti en flokkurinn tapar samt sem áður fylgi.
Besti árangur Framsóknar slakari en versti árangur Sjálfstæðisflokksins
Áslaug Arna segir það mikilvægasta í niðurstöðum kosninganna að meirihlutinn í borginni er fallinn, sem eru skýr skilaboð um breytingar og í raun ágætis árangur. Áslaug Arna benti á að Framsókn er ekki með sínum mesta sigri að ná versta árangri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og líkti sveitarstjórnarmálunum við golf þar sem flokkar eru með mismunandi forgjöf.
Logi líkti niðurstöðu Samfylkingarinnar í borginni, sem missti tvo borgarfulltrúa, við Mackintosh-dollu þar sem megi finna góða og slæma mola. Hann hélt sig því við sælgætismyndlíkinguna því í viðtali á kosningavöku RÚV í gær líkti hann niðurstöðunni við nammibar, það er sæta og súra mola.
Borgarstjóri geti verið upplitsdjarfur
Logi segir það vera afrek að hafa stýrt borginni í 12 ár og ráðist í breytingar sem hafa skilað því að breyta Reykjavík úr þorpi í evrópska stórborg. „Ég tel að Dagur B. geti verið upplitsdjarfur í dag og ég held að hann eigi möguleika,“ sagði Logi á Sprengisandi.
Logi segir það ekki rétt að kjósendur vilji breytingar í borginni þar sem flokkar sem hafna borgarlínu, líkt og Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur, hafi ekki riðið feitum hesti. Áslaug Arna hafnaði því og sagði það skýr skilaboð um breytingar þegar meirihlutinn fellur, og það í annað sinn.
Áslaug sagði Loga og borgarstjóra vera að finna hækju fyrir fallinn meirihluta. Logi sagði engan hafa verið hækju í núverandi meirihluta. „Það eru margir flokkar sem geta komið að þessari nauðsynlegu aðgerð sem við verðum að ráðast í í borginni. Það væri ótrúlega vont ef við færum í einhverri gamaldags, asnalegri flokkapólitík að fórna þeim frábæra árangri sem náðst hefur á síðustu 12 árum.“
Kjósendur að átta sig á hvað Framsókn stendur fyrir
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir árangurinn hjá flokknum stórkostlegan hringinn í kringum landið. Hann segir ákveðna breytingu vera að eiga sér stað í íslensku samfélagi. „Það sem er að gerast er að almenningur á Íslandi er að opna augu sín fyrir því sem Framsókn stendur fyrir, er að hafna öfgum sem við sjáum kannski meira úti í heimi, þessari pólariseringu,“ sagði Sigurður Ingi í Silfrinu, sem telur flokkinn vera á réttri leið.
Sigurður Ingi tók undir orð Egils Helgasonar þáttastjórnanda um að það væri eðlileg krafa að Framsókn verði í borgarstjórn og jafnvel að borgarstjóri verði úr þeirra flokki. „Það vilja margir vinna með okkur, kannski af því að við erum öfgalaus, ég veit að flokkurinn í Reykjavík mun nálgast þetta af yfirvegun.“
Skýrt ákall um breytingar þegar meirihlutinn fellur aðrar kosningar í röð
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var sérstaklega spurður út í fylgi flokksins í Garðabæ, sem mælist í fyrsta sinn undir 50 prósentum. „Mér finnst nú mestu skipta að við erum með sjö af ellefu bæjarfulltrúum,“ svaraði Bjarni í Silfrinu.
Hann benti á að Sjálfstæðisflokkurinn er áfram stærsti flokkurinn á sveitarstjórnarstiginu með 110 fulltrúa á landsvísu, sex færri en eftir síðustu kosningar. „Ég veit að við erum að tapa sums staðar en í heildarfjölda bæjarfulltrúa er tapið ekki eins og það ber með sér, og ég ætla ekki að dylja það, en við höfum að sjálfsögðu metnað til að vera enn stærri, ekki bara í Reykjavík.“
Bjarni segir þróunin í borginni mega að hluta til mega rekja til fjölgun borgarfulltrúa úr 15 í 23 sem tók gildi árið 2018. Þá segir hann það skýrt ákall um breytingar að aðrar kosningarnar í röð falli sitjandi meirihluti.
„Það er ekkert annað en sanngjarnt að segja að þetta er ákall um breytingar, nákvæmlega hvernig úr spilast fer rosalega mikið eftir þessu fólki, hvernig það nær saman, hvernig það treystir hvert öðru, hvað Framsóknarflokkurinn ætlar sér,“ sagði Bjarni, sem telur að Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, muni ekki útiloka samstarf við neinn flokk eins og sumir flokkar hafa gert. Hún sagði skýrt í viðtölum í morgun að flokkurinn muni ekki útiloka neinn flokk í viðræðum um meirihlutasamstarf.