„Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ræða bankasöluna. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ræða skýrslu um bankasöluna. Sjálfstæðisflokkurinn vill ræða ótímabæra birtingu á skýrslu um bankasöluna. Það er innanhúsmet í meðvirkni hér að falla.“ Þetta sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í umræðum á Alþingi í dag þar sem þingmenn og varaþingmenn Sjálfstæðisflokks og þingmenn stjórnarandstöðuflokka tókust á um alvarleika þess að skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankasöluna hafi verið lekið til fjölmiðla tæpum sólarhring áður en til stóð að birta hana.
Morgunblaðið hefur fjallað mikið um lekann á skýrslunni undanfarna daga og í prentútgáfu blaðsins hefur verið fjallað svipað mikið um hann og efnisatriði skýrslunnar það sem af er viku, auk þess sem tveir leiðarar hafa verið lagðir undir málið og einn Staksteinapistlill.
Í umræðunum á þingin lýstu Sjálfstæðisflokksins yfir miklum áhyggjum af því að trúnaðargagn hefði lekið og forseti Alþingis, Birgir Ármannsson úr Sjálfstæðisflokki, lýsti því yfir í lok umræðu að lekinn á skýrslunni yrði tekinn fyrir í forsætisnefnd auk þess sem væntingar væru til þess að hann yrði ræddur á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Stjórnarandstöðuþingmenn kölluðu málflutning Sjálfstæðismanna leikrit og spurðu þá um áhyggjur þeirra af leka á drögum að skýrslunni, sem einungis þrír þingmenn höfðu fengið að sjá. Þeir þrír þingmenn sitja í ráðherranefnd um efnahagsmál og eru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og viðskiptaráðherra, en Vísir fjallaði fyrr í vikunni um upplýsingar úr drögunum. Þá var spurt hvað þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætluðust til að forseti Alþingis myndi gera í þessu máli og hvort hann ætti að fara yfirheyra fjölmiðla um hver heimildarmaður þeirra væri.
Sagði lekann rof á drengskaparheiti þingmanna
Umræðan hófst á því að tveir varaþingmenn Sjálfstæðisflokks, þeir Björgvin Jóhannesson og Friðjón R. Friðjónsson, stigu í pontu undir liðnum störf þingsins og lýstu yfir miklum áhyggjum af því að skýrsla Ríkisendurskoðunar hafi lekið til nokkurra fjölmiðla á sunnudag, tæpum sólarhring áður en til stóð að birta hana.
Björgvin sagði í ræðu sinni að skýrslan hafi verið afhent sem trúnaðargagn. „Einhvern veginn rataði skýrslan samt beint í fjölmiðla og er orðin fyrsta frétt tæpum sólarhring áður en til stóð að opinbera hana. En það hefur varla verið minnst á þennan leka og trúnaðarbrests hér í þingsal. Finnst hæstvirtum þingmönnum þetta í alvörunni eitthvað léttvægt mál, að trúnaðargögnum nefndarmanna Alþingis sé lekið beint í fjölmiðla? Mér finnst það alls ekki og myndi ekki vilja liggja undir grun sem nefndarmaður og hafa gerst sekur um slíkt athæfi.“
Friðjón sagðist forviða yfir lekanum og sagði að Alþingi myndi gjalda fyrir trúnaðarbrestinn. Fólk sem ætti erindi við nefndir þingsins geti ekki treyst þinginu. „Fyrir 30 árum sirkabát líkti þingmaður og ráðherra starfsháttum á Alþingi við gagnfræðaskóla og hlaut bágt fyrir. Ég held að flestir þeir sem ég var með í Réttó á sínum tíma hafi haldið trúnað lengur og betur en þessi þingmaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem var skjótari en skugginn að skjóta skýrslunni upp í Efstaleiti. Ég held að það blasi við, virðulegi forseti, að Alþingi setur niður við þennan trúnaðarbrest og forseti hlýtur að bregðast við málinu.“
„Á forseti að fara í einhvern lögguleik?“
Þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku þennan málflutning óstinnt upp í næsta lið þingfundar, um fundarstjórn forseta. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf þau andsvör með því að spyrja hver það væri sem græddi á lekanum. „Hver er það sem græðir á því að umræða og fréttaflutningur hverfist um þennan leka frekar en þær brotalamir sem fjallað er um í skýrslunni sjálfri og ábyrgð ráðherra á þeim? Ekki eru það þeir þingmenn sem vilja að hér fari fram skýr og fókuseruð umræða um skýrsluna sjálfa. Ég verð að segja að ég er hundfúll að þessi skýrsla hafi lekið til fjölmiðla áður en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom saman til að fjalla um hana. Ég er líka hissa á því að drög að skýrslunni hafi lekið. Drög sem engir þingnefnd og enginn þingmaður, nema þeir þrír sem eiga sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál, höfðu aðgang að. Ég ætla hins vegar ekki í einhvern dylgjuleik hérna um hvern kunni að hafa framið eitthvað trúnaðarbrot.“ Hann biðlaði svo til þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem tekið höfðu til máls um að fara ekki framúr sér í ásökunum þegar ekki lægju fyrir neinar vísbendingar um að trúnaðarbrotið hafi átt sér stað hjá nefndarmönnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Hann spurði þá Björgvin og Friðjón svo hverju þeir væru eiginlega að kalla eftir. „Á forseti að fara í einhvern lögguleik? Á forseti að yfirheyra þingmenn? Á hann að hafa í gegnum pósthólfin hjá þingmönnum? Á að fara að yfirheyra fjölmiðla? Á að fara að taka fréttastofu RÚV á teppið og spyrja hver er heimildarmaðurinn?“
Sóru af sér dylgjur
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að það hafi verið svo augljóst að eitthvað í líkingu við þessa lekaumræðu myndi gerast. „Tilgangurinn með því að leka skýrslunni er nákvæmlega enginn vegna þess að það kostar bara svona væl. Ef við eigum að fara að tala um einhverjar dylgjur þá er bara um einar dylgjur að ræða hérna sem er vert að segja, að það hafi verið þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem láku skýrslunni.“ Þeir hagnist mest á því að vera með orðræðu um leka. „Ég ætla hins vegar ekki að nota slíkar dylgjur. Ég ætla bara að vekja athygli á þeim. Þetta er ekki alvarlegt mál.“
Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks sem situr í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, fór í pontu og sagðist vera orðlaus. Hún skildi ekki hvernig Birni Leví dytti í hug að saka „nefndarmenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Sjálfstæðisflokksins um að hafa lekið skýrslunni [...] þetta er gjörsamlega fáránlegur málflutningur. Ég ætla bara að koma hér upp og bera af mér sakir.“ Björn Leví kallaði í kjölfarið úr þingsal að hann hefði alls ekki gert það og aðrir þingmenn tóku undir það. Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem situr líka í nefndinni, tók í sama streng og sór líka af sér sakir.
„Um þetta fjallar Morgunblaðið ekki“
„Það er ótrúlegt að fylgjast með þessu leikriti,“ sagði Jóhann Páll þegar hann steig öðru sinni í pontu. „Sjálfstæðismenn koma hér í salinn [...] og gera að því skóna að þingmenn úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi lekið trúnaðargagni. Þegar hálfpartinn er dylgjað á móti að kannski hafi einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins lekið trúnaðargagni þá er það allt í einu alveg voðalegur glæpur og fólk svoleiðis yfir sig hneykslað á því.“
Þorbjörg Sigríður sló botninn í þessa umræðu og byrjaði á því að segja að auðvitað væri það óheppilegt að skýrslan hafi lekið. „Það er hins vegar með nokkrum ólíkindum að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hingað koma upp og tala um leka, tali ekki um hinn eiginlega leka, sem eru auðvitað þau drög sem aldrei áttu að koma fyrir sjónir almennings. Um þetta fjalla þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki. Um þetta fjallar Morgunblaðið ekki. Og það væri áhugavert að heyra sjónarmið Ríkisendurskoðanda til þess hvað ölli því að drög sem aldrei áttu að koma fyrir sjónir almennings rötuðu í fjölmiðla. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ræða bankasöluna. Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki ræða skýrslu um bankasöluna. Sjálfstæðisflokkurinn vill ræða ótímabæra birtingu á skýrslu um bankasöluna. Það er innanhúsmet í meðvirkni hér að falla.“