Andre Borschberg, flugmaður sólarorkuknúnu flugvélarinnar Solar Impulse II, setti í dag heimsmet í einmenningsflugi þegar hann flaug stanslaust í fjóra daga, 21 klukkustund og 52 mínútur frá Japan til Hawaii.
Metið sló Borschberg raunar í gær því fyrra metið átti Steve Fossett. Það var sett árið 2006 þegar Fosset flaug umhverfis jörðina á 76 klukkustundum og 45 mínútum.
Borschberg og félagi hans Bertrand Piccard fljúga nú umhverfis jörðina í sólarorkuflugvél sinni án þess að nota dropa af eldsneyti. Vélin er búin 17.000 sólarsellum sem hlaða rafhlöður vélarinnar á daginn. Vænghaf vélarinnar er meira en á júmbóþotu og hún vegur aðeins 2,3 tonn.
Ferð þeirra hófst í Abu Dhabi í mars og hafa þeir skipts á að fljúga í allt að 20 tíma í einu. Ferðin yfir Kyrrahafið til Hawaii var lengsti og hættulegasti leggur ferðarinnar og þess vegna hafði Borschberg með sér fallhlíf og björgunarbát ef hann hefði þurft að kasta sér frá borði.
Hann fékk lítið að hvílast þessa tæpa fimm sólarhinga sem hann var á flugi; aðeins 20 mínútur í einu. Hann var því að vonum þreyttur við komuna til Hawaii. Nú tekur við annað eins fyrir Piccard sem flýgur svipaða vegalengd frá Hawaii til Pheonix í Arizona.
„Þegar ég hóf þetta verkefni fyrir 14 árum hafði ég hugmyndir um að geta flogið dag og nótt án þess að nota eldsneyti. Þetta er því eitt af mikilvægustu augnablikum lífs míns,“ sagði Piccard við fjölmiðla.
Ferðin hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig enda þarf að nýta hvern sólargeisla sem býðst. Vélinni er því í raun flogið þar sem sólin skín og brottför frestað vegna óhagstæðra skilyrða. Flughraði vélarinnar er jafnframt aðeins einn sjötti af flughraða Boeing-farþegaþotu.
Hér má fylgjast með ferð Solar Impulse-vélarinnar, lesa af mælum hennar og kanna ástand flugmannsins.