Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, segir í bréfi til starfsmanna sem hún sendi í gærkvöldi að tímasetning fjölmiðlaumfjöllunar um ályktun þeirra frá því í sumar þar sem stjórnendur stéttarfélagsins voru gagnrýndir með ýmsum hætti fyrir framkomu sína ekki vera tilviljun. Hún sé „í augljósu samhengi við yfirstandandi baráttu félagsins gegn réttindabrotum gegn trúnaðarmanni okkar á Reykjavíkurflugvelli og þeirri árás á réttindi allra okkar félagsmanna sem í þeim felast.“
Málið sem þar er vísað í snýst um uppsögn Ólafar Helgu Adolfsdóttur sem var sagt upp án aðvörunar á meðan hún stóð í viðræðum við fyrirtækið um réttindamál vinnufélaga sinna í sumar. Þann 20. október var bæði Samtökum atvinnulífsins og Icelandair stefnt fyrir Félagsdóm vegna málsins.
Á fimmtudag, 28. október, birti RÚV viðtal við Guðmund Baldursson, stjórnarmann í Eflingu, þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að fá ályktunina afhenta og að hann hefði áhyggjur af framkomu stjórnenda Eflingar gagnvart starfsfólki. Talaði hann meðal annars um að starfsfólk sem hefði hætt hjá Eflingu hefði talið sér „að einhverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógnarstjórn.“
Vegna þessa ávarpaði Sólveig starfsmenn á föstudagsmorgun og bað þá um að draga til baka ályktunina. Ef þeir myndu ekki gera það myndi hún segja af sér.
Segir vandann vera ótilgreindan
Í nýrri ályktun starfsmanna Eflingar, sem samþykkt var í kjölfarið, kom fram að þeir töldu ósanngjarnt að stjórnendur veltu ábyrgð á innanhúsmálum yfir á sig. Ástæða hafi verið fyrir ályktun sem samþykkt var af starfsfólki Eflingar í júní síðastliðnum þar sem Sólveig Anna var meðal annars ásökuð um að halda aftökulista og um að fremja kjarasamningsbrot gegn starfsfólki með fyrirvaralausum uppsögnum.
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum og ber yfirskriftina „afsögn mín í kjölfar starfsmannafundar“, rekur Sólveig Anna innihald ályktunar starfsmanna, segir þann vanda sem þar er vísað í vera ótilgreindan og að því sé sleppt að tiltaka þau viðbrögð sem stjórnendur og mannauðsstjóri Eflingar hafi gripið til síðan í sumar.
Telur starfsfólk ljá málflutningi Guðmundar lögmæti
Hún segir í bréfinu að ekkert komi fram í ályktun starfsmanna frá því á föstudag sem viðurkenni vinnu stjórnenda á vinnustaðnum, bæði mannauðsstjóra og yfirmanna, við að bæta vinnuaðstæður, starfsanda og kjör starfsfólks síðan Sólveig anna tók við sem formaður félagsins. „Þó er það svo, að listinn yfir þær úrbætur er of langur til að ég geti talið hann upp hér. Ályktun fundar ykkar felur þannig ekki í sér neina traustsyfirlýsingu til mín og ekki heldur neitt sem dregur úr alvarleika þeirra ásakana sem trúnaðarmenn ykkar hafa borið á mig og stjórnendur vinnustaðarins. Ályktun fundar ykkar er vantraustsyfirlýsing til mín og til allra þeirra sem bera ábyrgð á starfsmannamálum vinnustaðarins.“
Sólveig Anna segir ályktun starfsfólksins auk þess ljá málflutningi Guðmundar Baldurssonar lögmæti. „Guðmundur hefur kallað opinberlega eftir klofningi félagsins en aldrei hefur hann þó haft hugrekki til að mæla fyrir þeim hugmyndum á vettvangi stjórnar eða trúnaðarráðs Eflingar. Sama gildir um herferð hans fyrir afhendingu margumræddrar ályktunar trúnaðarmanna. Þá herferð hefur hann alfarið unnið með klögumálum til utanaðkomandi aðila, fram hjá félögum sínum í stjórn og trúnaðarráði félagsins. Um hollustu hans við Eflingu þarf ekki að segja meira.“
Ásakar starfsmenn um að opna á neikvæða umfjöllun
Í bréfinu segir Sólveig Anna síðan að andstæðingar Eflingar og þeirrar stefnu sem hún og stjórn félagsins hafa markað í baráttu verka- og láglaunafólks séu margir.
„Tímasetning fjölmiðlaumfjöllunarinnar, sem var tilefni þess að ég leitaði til ykkar á föstudagsmorgun, er í augljósu samhengi við yfirstandandi baráttu félagsins gegn réttindabrotum gegn trúnaðarmanni okkar á Reykjavíkurflugvelli og þeirri árás á réttindi allra okkar félagsmanna sem í þeim felast. Með ákvörðun ykkar sl. föstudag um að standa staðfastlega við ýktar og ósanngjarnar lýsingar trúnaðarmanna á vinnustaðnum sem ég ber ábyrgð á hafið þið opnað á neikvæða umfjöllun og umræðu sem gerir mér illmögulegt að leiða þá baráttu.“Sólveig Anna var fyrst kjörin formaður Eflingar í mars 2018 og svo endurkjörin án mótframboðs tveimur árum síðar. Viðar Þorsteinsson, sem ráðinn var framkvæmdastjóri Eflingar eftir kjör Sólveigar Önnu, sagði við Kjarnann fyrr í dag að hann myndi fylgja henni út úr félaginu. Uppsagnarbréf hans yrði lagt fram í dag.