Baráttulistinn, sem leiddur var af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, vann sigur í stjórnarkjöri Eflingar sem lauk í dag. Hún verður því formaður Eflingar á ný, en hún sagði af sér sem slíkur í fyrrahaust.
Þrír listar voru í framboði. Trúnaðarráð Eflingar samþykkti á fundi sínum 13. janúar síðastliðinn tillögu uppstillingarnefndar um svokallaðan A-lista, en Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem setið hefur sem varaformaður stjórnar Eflingar frá því að Sólveig Anna sagði af sér, leiddi þann lista. Tveir aðrir núverandi stjórnarmenn eru á þeim lista en Agniezka Ewa Ziólkowska, sem tók við formennsku í Eflingu eftir að Sólveig Anna hætti, verður ekki í framboði.
Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, var einnig í forsvari fyrir framboðslista.
Sólveig Anna leiddi svo hóp Eflingarfélaga sem buðu fram svokallaðan B-lista, sem kallaður var Baráttulistinn. Þegar hópurinn tilkynnti um framboð sitt sagðist hann eiga „það sameiginlegt að vilja umbylta félaginu okkar.“
Báráttulistinn fékk 52 prósent greiddra atkvæða, A-listinn 37 prósent og C-listi Guðmundar átta prósent. Tvö prósent þeirra sem greiddu atkvæði tóku ekki afstöðu.
Á kjörskrá voru 25.842 en atkvæði greiddu alls 3.900 manns og kjörsókn því 15,1 prósent.
Aðrir á B-lista eru Ísak Jónsson, Guðbjörg María Jósepsdóttir, Innocentia F. Friðgeirsson, Kolbrún Valvesdóttir, Michael Bragi Whalley, Olga Leonsdóttir og Sæþór Benjamín Randalsson. Skoðunarmenn reikninga eru Barbara Sawka, Magnús Freyr Magnússon og Valtýr Björn Thors, sem er varamaður.
Þegar Sólveig Anna bauð sig fyrst fram til formanns Eflingar árið 2018, gegn A-lista uppstillingarnefndar Eflingar, fékk listinn sem hún leiddi 2.099 atkvæði en hinn listinn 519 atkvæði. Listi Sólveigar Önnu var svo einn í framboði árið 2020 og hún þá sjálfkrafa endurkjörin formaður.
Sagði af sér í fyrra eftir ósætti við starfsmenn á skrifstofu
Þegar Sólveig Anna sagði af sér sem formaður Eflingar í fyrrahaust var ástæðan ósætti við starfsmenn á skrifstofu Eflingar. Sú atburðarás hófst fimmtudaginn 28. október 2021 þegar RÚV birti viðtal við áðurnefndan Guðmund Baldursson þar sem hann greindi frá því að hann hefði ítrekað reynt að ályktun sem afhent hefði verið í júní síðastliðnum og innihélt ásakanir um að hún héldi úti sérstökum „aftökulista“ og hefði framið grafalvarleg kjarasamningsbrot. Ályktunin var undirrituð af trúnaðarmönnum og sögð sett fram fyrir hönd starfsmanna. Guðmundur sagði í fréttinni að hann hefði áhyggjur af framkomu stjórnenda Eflingar gagnvart starfsfólki. Talaði hann meðal annars um að starfsfólk sem hefði hætt hjá Eflingu hefði talið sér „að einhverju leyti ógnað innan gæsalappa, af ógnarstjórn.“
Þegar símtal hafi borist frá fréttamanni RÚV í aðdraganda birtingu fréttarinnar hafi Sólveig Anna áttað sig á því að atburðarásin sem hún hafði að einhverju leyti verið að undirbúa sig undir að gæti orðið, væri að verða að veruleika. „Ég hugleiddi bara stöðu mína og þær aðstæður sem voru upp komnar og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert annað að gera. Ég taldi mig vita með vissu að á þessum tíma væru mjög fáir úr starfsmannahópnum, alls fimm manns auk nokkurra stjórnenda, sem hefðu séð þessa ályktun. Ég taldi mig vita að það væru fáir sem hefðu komið að því að skrifa hana og að hún hefði ekki farið í neina dreifingu innan starfsmannahópsins. Af einhverjum ástæðum virðist Guðmundur Baldursson hafa fengið einhverskonar aðgang eða veður af þessu og sömuleiðis fyrrverandi stjórnandi sem reyndi að nota ályktunina til að fjárkúga mjög veglegan starfslokasamning út úr félaginu.“
Hún ákvað að ávarpa starfsfólk daginn eftir viðtalið og óska eftir lágmarkstraustyfirlýsingu starfsfólks við sig. Við því var ekki orðið og niðurstaða starfsmannafundar innihald ályktunarinnar ætti rétt á sér. Henni, og helsta samstarfsfólki hennar, hafi orðið ljóst að ef ályktunin yrði gerð opinber myndi þau ekki getað starfað lengur. „Það myndi þessi herferð sem rekin hefur verið gegn okkur víða að loksins ná þessum raunverulega árangri að við hefðum á endanum engan trúverðugleika.“
Í kjölfarið sagði hún af sér.