„Öruggt og gott húsnæði eru sjálfsögð mannréttindi og grundvallaratriði í velferðarsamfélagi. Íslenskur húsnæðismarkaður hefur undanfarin ár einkennst af óstöðugleika; húsnæðisverð hefur hækkað upp úr öllu valdi og fjöldi fólks býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Hækkandi verðbólga bætir nú gráu ofan á svart, enda fer húsnæðiskostnaður bæði leigjenda og eigenda nú ört hækkandi.“
Þetta skrifar Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB í stöðuuppfærslu á Facebook í kjölfar útgáfu skýrslu sem starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti á opnum kynningarfundi fyrr í dag. Kjarninn fjallaði um skýrsluna en í henni segir meðal annars að taka þurfi opinberan húsnæðisstuðning til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda.
Sonja Ýr telur að hlutverk hins opinbera sé að tryggja öllum húsnæðisöryggi með framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði, húsnæðisstuðningi og efnahagsaðgerðum sem draga úr óeðlilegri hækkun húsnæðisverðs.
Æskilegt viðmið að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 25% af ráðstöfunartekjum
Sonja Ýr segir í stöðuuppfærslu sinni að margt sé til bóta í tillögunum og gefi ástæðu til hóflegrar bjartsýni um betri tíma.
Í fyrsta lagi sé það afar jákvætt að ríki og sveitarfélög ætli að taka ábyrgð á uppbyggingu, með því að leggja fram eina sameiginlega húsnæðisáætlun fyrir allt landið.
Í öðru lagi fagnar hún því að sjá áherslu lagða á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins. „Áform um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu á næstu fimm árum og 3.500 íbúðir árlega næstu fimm ár þar á eftir er stórt skref. Sérstaklega ef horft er til þess að félagsleg húsnæðisúrræði nemi að jafnaði 5 prósent nýrra íbúða og húsnæði á viðráðanlegu verði um þriðjungur íbúða. Til að þetta markmið náist er nauðsynlegt að endurskoða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem gerir ráð fyrir fækkun stofnframlaga úr 600 íbúðum árlega í 300.“
Í þriðja lagi sé mikilvægt að sett sé fram æskilegt viðmið um að húsnæðiskostnaður sé ekki umfram 25 prósent af ráðstöfunartekjum fólks, og aldrei hærri en 40 prósent. Á þetta hafi þau í BSRB lagt sérstaka áherslu.
Í fjórða lagi að farið verði strax í þá vinnu að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda og endurskoðun á húsnæðisstuðning hins opinbera og svo framvegis. Þeirri vinnu eigi að vera lokið næsta haust.
„Allt eru þetta og hafa verið áherslur verkalýðshreyfingarinnar til langs tíma,“ skrifar hún að lokum.
Öruggt og gott húsnæði eru sjálfsögð mannréttindi og grundvallaratriði í velferðarsamfélagi. Íslenskur húsnæðismarkaður...
Posted by Sonja Þorbergsdóttir on Thursday, May 19, 2022