Mikil spenna er hlaupin í kosningabaráttuna í Þýskalandi, en þar fara fram þingkosningar 26. september, degi eftir að Íslendingar ganga að kjörborðinu. Á síðustu vikum hefur flokkur Sósíaldemókrata sótt í sig veðrið og mælist leiðtogi flokksins, Olaf Scholz, nú trekk í trekk sá sem Þjóðverjar vilja helst sjá sem eftirmann Angelu Merkel, sem kanslari Þýskalands.
Bandalagsflokkur Kristilegra demókrata mælist þó enn með forskot á Sósíaldemókrata í skoðanakönnunum á landsvísu og þar á eftir koma Græningjar, sem voru á miklu flugi í fyrr í sumar og mældust um hríð með mest fylgi í skoðanakönnunum.
Lítið skilur flokkanna að, í síðustu könnunum. Kristilegir demókratar, flokkur Merkel, sem hefur haldið um stjórnartaumana í Þýskalandi umliðin 16 ár, mælist þó stærstur og er að mælast með um 23-25 prósenta fylgi í nýlegum könnunum.
Sósíaldemókratar Scholz, sem er fjármálaráðherra í ríkisstjórn Merkel, hafa sótt verulega í sig veðrið og mælast nú með rúmlega tuttugu prósenta fylgi. Græningjar koma svo í kjölfarið og hafa verið að mælast með með um 18-20 prósenta fylgi á undanförnum vikum. Þetta er því þriggja turna tal.
Stjórnmálaskýrendur í Þýskalandi og víðar telja margir að fylgistap Kristilegra demókrata undanfarnar vikur megi að mestu rekja til þess að æ færri sjá fyrir sér að kanslaraefni flokksins, Armin Laschet, sé verðugur eftirmaður Merkel á kanslarastóli.
Flissandi á flóðasvæðum
Stjórnmálaumhverfið í Þýskalandi er kvikt um þessar mundir og miklar sveiflur hafa verið á fylgi stærstu flokkanna undanfarin misseri.
Kjósendur fylktu sér að baki Kristilegra demókrata í upphafi kórónuveirufaraldursins, er samstaða var um aðgerðir sem heftu mannlífið, en verulega hallaði undan fæti hjá flokknum þegar veiran fór á flug í Þýskalandi á vormánuðum og grípa þurfti til harðra aðgerða á ný til að bæla smitbylgjuna niður.
Þá nutu Græningjar góðs af þessum sveiflum, en fylgisaukning þeirra hefur gengið til baka að miklu leyti.
Á allra síðustu vikum hafa Kristilegir demókratar svo misst mikið fylgi og margir tengja það við viðbrögð Armins Laschet, leiðtoga flokksins, við flóðunum mannskæðu í vesturhluta landsins fyrr í mánuðinum.
Hann þótti sýna léttúð við þær alvarlegu aðstæður sem þar voru uppi – og myndband sem sýndi hann hlæja á meðan forseti landsins, Frank-Walter Steinmeier, hélt ávarp á flóðasvæðunum, fór hreint ekki vel í þýskan almenning.
Reglulega eru framkvæmdar skoðanakannanir um afstöðu þýskra kjósenda til þeirra þriggja sem hafa verið útnefnd sem kanslaraefni stærstu flokkanna. Þar hefur Olaf Scholz vinninginn sem stendur og mælist með gott forskot á bæði Laschet og Önnulenu Baerbock, kanslaraefni Græningja.
Það sem ef til vill stendur upp úr í nýlegum skoðanakönnunum um kanslaraefnin er það að valmöguleikinn „ekkert þeirra“ er nær alltaf sá vinsælasti – og slagar hlutfall þeirra sem segjast ekki vilja sjá Scholz, Laschet né Baerbock á kanslarastóli gjarnan yfir 50 prósent í nýlegum könnunum.
Það sem ef til vill markar helst kosningabaráttuna í Þýskalandi er því að mati margra það að enginn sér fyrir sér að skór Angelu Merkel verðir fylltir að fullu, en eftir 16 ár í kanslaraembætti og hlutverki hálfgerðrar landsmóður lá reyndar fyrir að það yrði ávallt erfitt.
Merkel sjálf hefur stigið fram til stuðnings Laschet, á kosningafundi í höfuðborginni Berlín. Hún sagðist algjörlega sannfærð um að Kristilegi demókratinn væri með réttu viðhorfin til að geta orðið þýsku þjóðinni góður kanslari. Hvort yfirlýsingar Merkel muni sannfæra þýska kjósendur á þó eftir að koma í ljós – enn er rúmur mánuður til kosninga.