Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ástandið vegna COVID-19 hafa lagast og álagið á spítalanum sömuleiðis minnkað. Því sé það til skoðunar af stjórnvöldum, í samvinnu við sóttvarnalækni að ráðast í frekari afléttingar en þær sem kynntar voru í síðustu viku.
Þetta er meðal þess sem fram kom í mála hans á upplýsingafundi dagsins þar sem hann fór yfir stöðu faraldursins ásamt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni hjá almannavörnum. Þórólfur segir það áhættu mat sem nú er stuðst við snúi ekki lengur einungis að hættulegum afleiðingum sýkingarinnar sjálfrar, heldur einnig að þeim samfélagslegu afleiðingum sem sjást af útbreiddum veikindum og fjarvistum starfsmanna.
„Þannig tel ég skynsamlegt að halda áfram að aflétta í ákveðnum skrefum og miða afléttingarnar við stöðuna eins og hún er og vonandi verður hægt að aflétta hraðar en kynnt var í síðustu viku,“ segir Þórólfur.
1.379 smit greindust innanlands í gær og 49 á landamærunum. 36 prósent þeirra sem greindust innanlands voru í sóttkví. Fimm prósent landsmanna eru ýmist í sóttkví eða einangrun, 10.653 í einangrun og 6.887 í sóttkví.
Til skoðunar að stytta einangrun og sóttkví fyrr en áætlað var
Fyrsta skref af þremur í afléttingaráætlun stjórnvalda tók gildi 29. janúar. Síðan þá hefur almannavarnarstig vegna faraldursins verið fært af neyðarstigi, sem lýst var yfir 11. janúar, niður á hættustig og Landspítalinn hefur sömuleiðis verið færður af neyðarstigi niður á hættustig. Næsta skref afléttinga á að taka gildi 24. febrúar en Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að mögulega verði ráðist í frekar afléttingar fyrr, jafnvel á föstudag.
Þórólfur tekur undir með heilbrigðisráðherra en segir ekki víst hvort hann skili minnisblaði um frekari afléttingar til heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórnarfund á föstudag en afléttingar sem eru til skoðunar snúi að því að stytta frekar einangrun og sóttkví.
Bæði Víðir og Þórólfur nefndu að greina megi töluverðan óróleika vegna afléttingaráætlunar stjórnvalda. Þórólfur telur hins vegar að stjórnvöld séu að gera sitt besta til að aflétta í öruggum skrefum, en á sama tíma sé stöðugt verið að endurskoða allt ferlið og koma til móts við þær athugasemdir sem fram hafa komið.
„Ég tel að góðar vonir séu til þess að við munum ná í mark í þessari baráttu og í þessu langhlaupi í síðari hluta mars og jafnvel fyrr ef ekkert óvænt kemur upp á,“ segir Þórólfur, sem skorar á landsmenn að standa saman þessa síðustu metra.
Farsóttarnefnd í takt við tillögur sóttvarnalæknis
Aðspurður hvort COVID-19 sé enn skilgreindur sem sjúkdómur sem ógnar samfélaginu segir Þórólfur slíkt lög, eins og eru til að mynda í Danmörku, séu ekki hér á landi en í sóttvarnalögum er talað um sjúkdóma sem ógna almannaheill. Þórólfur benti á drög að nýjum sóttvarnalögum þar sem sem reynt verður að samræma skilgreiningar af þessu tagi við dönsku lögin.
Umrætt frumvarp um sóttvarnalög er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda en samkvæmt því verður sóttvarnalæknir skipaður af ráðherra og níu manna farsóttarnefnd mun leggja til hvaða sóttvarnaráðstafana eigi að grípa til hverju sinni. Þórólfur segir nefndina skynsamlegt skref og í takt við þær tillögur sem hann lagði til við starfshópinn sem vann frumvarpsdrögin.
Samkvæmt frumvarpinu mun farsóttarnefndin taka að nokkru leyti við verkefnum sóttvarnalæknis samkvæmt gildandi lögum, þ.e. að koma með tillögur til ráðherra um beitingu veigamestu opinberu sóttvarnaráðstafanna. Markmiðið með tilkomu farsóttanefndar er að færa verkefni og ábyrgð sóttvarnalæknis yfir á fleiri hendur með „breiðari þekkingu og skírskotun“, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Í frumvarpinu er lagt til að reglugerðir um sóttvarnaráðstafanir gildi ekki lengur en fjórar vikur í senn en sóttvarnalæknir geti ákveðið að grípa til ráðstafana í sjö daga án þess að leita heimilda, telji hann þörf á. Í frumvarpinu er einnig lagt til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt og að heilbrigðisráðherra eigi að upplýsa Alþingi um sóttvarnaaðgerðir með mánaðarlegri skýrslugjöf.
Afslappaður klæðnaður Víðis tákn um bjartari tíma
Upplýsingafundurinn, sem er sá 197. í röðinni endaði á léttum nótum þegar Þórólfur sagði að um tímamótadag væri að ræða þar sem þetta væri fyrsti upplýsingafundurinn þar sem Víðir er ekki í lögreglubúningi. „Þetta er vonandi merki um það að bjartari tímar eru í vændum,“ sagði Þórólfur. Víðir brosti og sagði að mögulega tengist það því „hversu myglaður hann var í morgun.“ „En við sjáum til,“ sagði Víðir.