Greiningardeild Arion banka spáir því að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni hækkað stýrivexti um 0,5 prósentustig og um 1,25 prósentustig það sem eftir lifir árs. Þá verði stýrivextir komnir í 6,25 prósent og verðbólga verði um þrjú prósent, en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5 prósent.
Í síðustu yfirlýsingu Peningastefnunefndar, í júní, eftir að línur höfðu tekist að skýrast í kjarasamningum, sagði: „Enn fremur virðist einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.“ Síðan þá hafa verðbólguhorfur ekki breyst stórvægilega, að mati greiningardeildar. „Enn er talsverður uppgangur víða í hagkerfinu og innstreymi fjármagns, sem birtist í um 70 ma.kr. gjaldeyriskaupum Seðlabankans frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, ýtir enn frekar undir eftirspurn í hagkerfinu,“ að því er segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka. Þá er enn óvíst hvernig skattalækkanir og boðaðar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum verða fjármagnaðar en peningastefnunefnd sagði í júní að bankinn myndi „grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur“.
Þá segir greiningardeildin að verðbólguhorfur hafi heldur batnað, frá síðasta fundi. „Horfur um innflutta verðbólgu hafa batnað frá síðasta fundi, sérstaklega vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu, sem greiningaraðilar telja að muni ekki snúast við á næstunni. Frá því að peningastefnunefnd gaf síðast frá sér tilkynningu hefur heimsmarkaðsverð á hráolíu (Brent) lækkað um 24% mælt í íslenskum krónum og koma áhrif þess á innlent verðlag fram með töfum. Minni innflutt verðbólga og lægra olíuverð hækkar raunvaxtastig að öllu óbreyttu svo Seðlabankinn mun líklega hækka vexti minna og/eða hægar vegna þessa,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.